Bragi L. Hauksson, formaður tennisdeildar látinn

Bragi Leifur Hauksson formaður tennisdeildar Þróttar andaðist 20. júní sl. Hann verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju fimmtudaginn 13. júlí kl. 13.

Bragi var með ódrepandi áhuga á tennis og ætíð reiðubúinn til starfa og leið ekki á löngu uns Bragi var orðinn lifið og sálin í starfi hennar. Hann leiddi hóp félaga í tennisdeildinni sem sjá um völlinn og viðhald hans og mæta árlega vor og haust til að setja upp og taka niður vindhlífarnar sem skýla völlunum fyrir napri norðanáttinni í Laugardalnum. Hann beitti sér fyrir útbreiðslu tennisíþróttarinnar og sá kynningu á tennis fyrir byrjendur til síðasta dags.

Áhugi Braga var ekki eingöngu bundinn við tennis. Hann var listhneigður eins og hann á kyn til og var einnig einn af bestu bridge-spilurum landsins með góða sigra á þeim vettvangi m.a. nokkra Íslandsmeistaratitla.

Bragi var félagslyndur og vinsæll. Undir forystu hans fór nokkur hópur tennisleikara og áhangenda þeirra árum saman í tennisferðir til Króatíu að strönd Adríahafsins þar sem finna má gnægð tennisvalla og vel viðrar til spilamennsku. Hann hefur einnig staðið fyrir því að hópur fyrrverandi tennisleikara hittist mánaðarlega til hádegisverðar veitingastöðum sem hann valdi af kostgæfni enda var hann matgæðingur og listakokkur.

Stjórn Þróttar og tennisdeild félagsins sendir aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.