Ian Jeffs, þjálfari Þróttar síðustu tvö árin lætur frá og með deginum í dag af störfum hjá félaginu. Hann tilkynnti leikmönnum ákvörðun sína í dag. Ian Jeffs og starfslið hans tók við liði Þróttar haustið 2021 og tókst á hendur það verkefni að byggja upp alveg nýtt lið. Undir hans forystu fór liðið upp um deild á síðasta ári og á laugardag tryggði lið Þróttar sér svo áframhaldandi veru í Lengjudeild að ári eins og stefnt var að.
Ian Jeffs tilkynnti stjórn Knattspyrnudeildar þessa ákvörðun sína fyrir nokkrum vikum en sinnti starfi sínu af ótvíræðri fagmennsku fram yfir síðustu umferð Lengjudeildarinnar. Hann hefur náð eftirtektarverðum árangri og mótað sterka liðsheild sem staðið hefur saman í gegnum súrt og sætt.
,,Það er mikil eftirsjá af Ian Jeffs úr okkar herbúðum,” segir Kristján Kristjánsson, formaður Knd. Þróttar. ,,Við höfum átt frábært samstarf sem engan skugga hefur borið á, en nú telur hann rétt að leita eftir nýjum verkefnum. Við óskum honum velfarnaðar hver sem þau verða og þökkum samstarfið af heilum hug.
Stjórn knattspyrnudeildar Þróttar hefur undanfarin ár unnið af uppbyggingu deildarinnar og endurskipulagningu á öllum sviðum. Þeirri vinnu miðar vel, aðstaða félagsins hefur gjörbreyst, reksturinn hefur verið styrktur, fjárhagurinn hefur batnað og fjölmargir uppaldir leikmenn hafa fengið tækifæri í mfl. félagsins í karlaflokki eins og til stóð. Stjórnarinnar bíður nú að ráða nýjan þjálfara sem færir félagið áfram og styrkir stöðu þess enn frekar. Öllum breytingum fylgja tækifæri og þau verða nýtt af fullum krafti.”
,,Ég vil þakka Þróttarasamfélaginu öllu fyrir stuðninginn síðustu tvö árin,” segir Ian Jeffs, fráfarandi þjálfari. „Þessi tími hefur verið bæði spennandi og skemmtilegur þó hann hafi ekki verið átakalaus. Stjórn og starfsfólk hefur staðið þétt við bakið á þjálfarateyminu og við höfum náð þeim markmiðum sem við settum okkur þessi ár. Ég tel rétt á þessari stundu að annar þjálfari taki við liði Þróttar og haldi áfram uppbyggingunni og ég kveð félagið sáttur.”