Þrátt fyrir baráttu bíður brottflutningur vallarstjóra Þróttar – Isaac Kwateng

Isaac Kwateng og stuðningsfólk

Kæra Þróttarsamfélag

Okkur þykir afskaplega leitt að tilkynna ykkur að enn einn steinninn hefur verið lagður í götu Isaac okkar. Félaginu var á dögunum tilkynnt af lögreglumanni sem mætti á skrifstofu Þróttar að búið væri að kaupa flugmiða fyrir Isaac og til stæði að flytja hann af landi brott þann 16. október næstkomandi. Engar frekari upplýsingar um málið liggja fyrir.

Isaac er enn í starfi vallarstjóra Þróttar og hefur verið frá byrjun árs 2022, ásamt því að vera leikmaður varaliðs meistaraflokks karla. Á sex mánaða fresti hefur félagið endurnýjað umsókn hans um dvalar- og atvinnuleyfi og einmitt núna er slík endurnýjun í gangi og beðið er niðurstöðu. Fram að þessu vorum við bjartsýn enda hafa engar forsendur breyst hvað vinnu hans varðar fyrir félagið.

Einnig er óafgreidd umsókn Isaac um íslenskan ríkisborgararétt sem vonir standa til að verði tekin fyrir á Alþingi í desember.

Okkur rennur blóðið til skyldunnar að upplýsa ykkur kæra samfélag um stöðu þessa máls. Ekki síst þar sem mörg hundruð ykkar komuð saman og sýnduð Isaac svo fallegan stuðning á Avis-vellinum í lok júlí síðastliðinn. Okkur þykir ótrúlegt að honum dugi ekki að borga hér skatta og vera virkur þátttakandi í samfélaginu. Í von um að réttlætið myndi sigra hefur Isaac helt sér í íslenskunám og er að taka bílpróf til að ná enn betri tengingu við samfélagið. Það er ótrúlega sárt að sjá að öll baráttan fyrir veru þessa góða manns hér hjá okkur hafi ekki skilað árangri. Takk fyrir alla manngæskuna kæra samfélag.