Breytingar á skrifstofu félagsins / Nýr framkvæmdastjóri og fjármálastjóri Þróttar

Jón Hafsteinn Jóhannsson

Aðalstjórn Knattspyrnufélagsins Þróttar hefur ráðið Jón Hafsteinn Jóhannsson sem framkvæmdastjóra félagsins og mun hann taka við starfinu í ársbyrjun 2024. María Edwardsdóttir starfandi framkvæmdastjóri mun sinna starfinu út árið og taka svo við nýju starfi fjármálastjóra Þróttar. María hefur leitt félagið í gegnum mikla umbreytingu á síðustu árum og unnið óeigingjarnt starf í þágu þess. María mun starfa náið með Jóni Hafsteini á skrifstofu félagsins. María hefur á skömmum tíma eflt innviðina, lyft grettistaki í fjármálum Þróttar og deilda félagsins auk þess sem félagsstarfið hefur blómstrar á hennar vakt.

Jón Hafsteinn mun sinna daglegum rekstri og leiða innleiðingu á nýrri stefnu sem kynnt verður á aðalfundi félagsins síðar á þessu ári. Hann kemur til okkar frá Reykjavíkurborg þar sem hann hefur starfað frá 2021 sem Stafrænn leiðtogi á Þjónustu- og nýsköpunarsviði. Þar vann hann að stafrænni umbreytingu Skóla- og frístundasviðs við hlið stjórnenda fagsviðsins ásamt því að styðja við menningarbreytingar með virku samtali, stuðla að nýjum ferlum, veita ráðgjöf og fræðslu og valdefla starfsfólk. Áður starfaði hann í yfir 13 ár hjá Símanum í ýmsum störfum sem sérfræðingur, vörustjóri og hópstjóri á fjármála- og tæknisviði.

Jón Hafstein eða Nonna þjálfara (sem hann er betur þekktur fyrir í Þróttheimum) þarf vart að kynna fyrir félagsmönnum en Nonni hefur þjálfað yngri flokka félagsins í knattspyrnu til fjölda ára. Nonni hefur einnig verið ötull í sjálfboðaliðastarfi félagsins og er ákaflega vel kynntur inn félagsins. Nonni er 37 ára Húsvíkingur, er kvæntur Sigrúnu Sif Jónsdóttur heilbrigðis-gagnafræðingur og eiga þau á þrjú börn á aldrinum 1-13 ára.

Ég er einstaklega ánægður með ráðningu á Nonna sem framkvæmdastjóra félagsins og tekur hann við því frábæra starfi sem María hefur skilað á síðustu tveimur árum. Með ráðningunni tökum við stórt skref inn í framtíðina og hröðum uppbyggingu félagsins.“ segir Bjarnólfur Lárusson, formaður Þróttar.