Ólafur H. Kristjánsson skrifaði í dag undir 3ja ára samning um að þjálfa kvennalið Þróttar sem endaði í 3. sæti Bestu deildarinnar á síðasta tímabili.
Ólafur á að baki mjög farsælan feril sem leikmaður og þjálfari og lék hér á landi með FH og KR og í Danmörku með AGF þar sem hann lauk ferli sínum sem leikmaður árið 2000, en tók þá við þjálfun hjá félaginu.
Ólafur hefur náð framúrskarandi árangri sem þjálfari, hann tók við Fram árið 2004 þegar hann sneri heim frá Danmörku, gerði karlalið Breiðabliks að bikarmeisturum árið 2009 og Íslandsmeisturum árið eftir. Síðar þjálfaði hann Nordsjælland og Randers í efstu deild, sem og Esbjerg í næst efstu deild í Danmörku og þar á milli FH í efstu deild á Íslandi. Nú síðast var hann yfirmaður knattspyrnumála hjá Breiðabliki.
Ólafur hefur lokið æðstu gráðum í þjálfun og hefur um margra ára skeið kennt á þjálfaranámskeiðum á vegum KSÍ og miðlað af reynslu sinni til annarra þjálfara. Þá hefur han verið fastagestur á heimilum landsmanna í tengslum við útsendingar af stórmótum í knattspyrnum, bæði hjá konum og körlum.
Ólafur mun strax hefja störf hjá Þrótti.
Kristján Kristjánsson, formaður knd. Þróttar segir:
„Ráðning Ólafs H. Kristjánssonar sýnir þann metnað sem einkennir allt starf knattspyrnudeildar Þróttar þessa dagana. Með henni stígum við stórt skref og sköpum forsendur til að halda áfram að bæta árangur kvennaliðsins ár frá ári. Ólafur verður frábær viðbót við þann þjálfarahóp sem starfar hjá Þrótti og reynsla hans og þekking á knattspyrnu mun nýtast félaginu vel á fjölmörgum sviðum. Við hlökkum til samstarfsins og vitum að Þróttararsamfélagið allt fagnar þessari ráðningu og þeim stórhug sem hún sýnir.“
Ólafur H. Kristjánsson segir:
,,Ég er mjög spenntur að taka við kvennaliði Þróttar sem verið hefur í fremstu röð í íslenskum kvennafótbolta undanfarin ár. Framtíðarsýn Þróttara hefur heillað mig og ég trúi því að við getum gert liðið enn betra en það er í dag. Ég tek við góðu búi og lít á það sem mjög verðugt verkefni að halda áfram þeirri góðu vinnu sem unnin hefur verið í Þrótti.“