Sigurvin Ólafsson skrifaði í dag undir 3ja ára samning um að þjálfa karlalið Þróttar sem endaði í 8. sæti Lengjudeildarinnar á nýliðnu keppnistímabili.
Sigurvin er Vestmannaeyingur og á að baki mjög farsælan feril sem leikmaður. Hann lék meðal annars fyrir ÍBV, KR, FH og Fram í efstu deild og var um tíma á mála hjá Stuttgart í Þýskalandi. Sigurvin varð fimm sinnum Íslandsmeistari sem leikmaður og lék 7 landsleiki fyrir Íslands hönd auk fjölda leikja fyrir yngri landslið. Þá lék Sigurvin 5 leiki fyrir SR, venslalið Þróttar, árið 2012 á láni frá Fylki og skoraði eitt mark.
Sigurvin, sem lokið hefur KSÍ A gráðu í þjálfun, stýrði liði KV á árunum 2018 – 2021 og fór þá með liðið upp um tvær deildir, úr 3. deild upp í Lengjudeildina, á tveimur árum. Hann var síðan aðstoðarþjálfari KR 2021 og aðstoðarþjálfari FH 2022-23.
Kristján Kristjánsson formaður knattspyrnudeildar segir: „Það er óhætt að fagna ráðningu Sigurvins til Þróttar. Hann er mjög metnaðarfullur og hugmyndir hans og félagsins fara mjög vel saman. Stærsta verkefni nýs þjálfara er að þjálfa ungan og efnilegan leikmannahóp uppaldra leikmanna og bæta leik liðsins frá ári til árs. Það er stefna Þróttar að byggja upp lið með þessum hætti og við erum þess fullviss að Sigurvin sé rétti maðurinn til að leiða lið meistaraflokks karla í Þrótti áfram á þessari braut.“
Sigurvin Ólafsson segir: „Þróttarar hafa verið að gera spennandi hluti undanfarin ár og áherslur félagsins eru áhugaverðar. Það er verðugt verkefni fyrir mig að þjálfa unga leikmenn með það fyrir augum að þeir myndi kjarnann í liði sem ætlað er að ná árangri til lengri tíma. Ég hlakka til að takast á við starfið og að vinna með Þrótturum að sameiginlegum markmiðum.“
Þróttur býður Sigurvin velkominn til starfa.