Áramótaávarp formanns – Ár samstöðu Þróttara samfélagsins

Bjarnólfur Lárusson

Ár 2023 verður ár sem Þróttarar munu minnast vegna samstöðu félagsmanna, og hversu mikill kraftur leysist úr læðingi þegar heilt samfélag stendur saman. Barátta Isaac Kwateng, vinar og samstarfsmanns okkar, fyrir rétti sínum og tilveru hér á Íslandi hefur verið löng og erfið. Það var því ótrúleg upplifun að standa á Avis vellinum í sumar ásamt hundruð Þróttara sem vildu sýna í verki þá umhyggju og virðingu sem félagið ber til Isaac og hans störfum fyrir félagið.  Samtakamáttur samfélagsins skilaði svo að lokum þeim árangri að Isaac fékk samþykkt atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi eftir að hafa verið vísað úr landi fyrr á árinu.

Hugur og hjörtu Þróttara voru hjá Eirík Stefánssyni, ungum Þróttara og fjölskyldu hans, þegar yfir 700 áhorfendur mættur í Þróttheima, á styrktarleik 2. fl. Þróttar á móti Stjörnunni á fallegu haustkvöldi. Alvarleg veikindi hafa hrjáð fjölskylduna um langt skeið og samstaða Þróttara samfélagsins var mikil, um að reyna að létta á hjá fjölskyldu Eiríks á þessu erfiðu tímum.

Knattspyrnufélagið Þróttur er nefnilega svo miklu stærra en einn kappleikur í íþróttum því félagið er samfélag fólks sem vill láta gott að sér leiða, til góðs fyrir nærsamfélagið hér í Laugardal og til heilla fyrir önnur samfélög hérlendis og erlendis.

Knattspyrnusumarið var fyrir fram mjög spennandi. Væntingar um gott gegni meistaraflokks kvenna voru sannarlega til staðar og spennan fyrir því hvernig meistaraflokkur karla  mundi vegna í endurkomu liðsins í Lengjadeildina. Árangur kvennaliðsins, 3. sætið í Bestu deildinni er góður árangur og liðið sannarlega búið að festa sig í sessi sem eitt af bestu knattspyrnuliðum landsins. Árangur liðsins að undanförnu hefur skilað leikmönnum þess verðskuldaða athygli sem hefur skilað sér í A landsliðskonum frá Þrótti þar sem m.a. Ólöf Kristín Sigurðardóttir (Olla) skoraði tvö mörk í sínum fyrsta A landsliðsleik á móti Skotlandi á árinu.

Strákarnir stóðu sig einnig vel í sumar en það er ekki sjálfgefið að tryggja áframhaldandi veru sína í Lengjudeildinni á fyrsta ári eftir að hafa farið upp um deild árið áður. Það hefur verið gaman að sjá karlaliðið ná góðu jafnvægi á síðastliðnum tveimur árum og umfram allt ákaflega mikilvægt fyrir félagið og sérstaklega þar sem stærsti hluti hópsins er skipaður af uppöldum leikmönnum. Þrátt fyrir stress á lokametrunum þá veit maður að það býr styrkur í þessum strákum og þeir munu vaxa með aukinni reynslu á næstu árum.

Barna- og unglingastarf knattspyrnudeildar blómstrar sem aldrei fyrr og með þeirri glæsilegu aðstöðu sem upp er komi í Þróttheimum, þá mun barna- og unglinga starf félagsins einungis vaxa enn frekar til framtíðar. Þróttur átti fjöldamarga fulltrúa sem voru boðaðir til æfinga með landsliðum í knattspyrnu eða alls 18 ungmenni og þar af létu nokkur þeirra landsleiki á árinu. Jakob Ocares var fyrirliði U15 ára landsliðs Íslands gegn Spánverjum og liðsfélagi hans Björn Darri Oddgeirsson lék við hlið hans á þriggja leikja móti. Fabian Bujnowski lék með U16 ára landsliðinu í æfingaleik gegn Ungverjum og Kolbeinn Nói Guðbergsson lék með Íslendingum í undan riðli U17 ára landsliða.

Stúlkna megin var Brynja Rán Knudsen  fasta maður í U17 ára landsliðinu og Hekla Dögg Ingvarsdóttir og Camilly Cristal Silva Da Rocha léku í UEFA móti og vináttuleiki gegn Portúgölum.

Breytingar eru hluti af knattspyrnunni, leikmenn og  þjálfarar munu koma og fara. Með aukinni velgengni munu bestu félög landsins og félög erlendis sækjast eftir okkar öflugasta fólki.  Það var erfitt að horfa á eftir Nik Chamberlain fara frá félaginu eftir áralangt farsælt starf, en undir stjórn Nik komst kvennaliði Þróttar í fremstu röð á Íslandi. Ian Jeffs fór eftir að hafa komið karlaliði félagsins upp um deild og tryggt sæti félagsins í Lengjudeild að ári. Svo hafa leikmenn á borð við Katie Cousins, Katla Tryggvadóttir og Hinrik Harðarson horfið á braut eftir tímabilið. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að leikmenn taka miklum framförum í Laugardalnum, þar sem vel er hlúað að þeim og að sú stefna sem Þróttur vinnur eftir er að skila góðum árangri.

Knattspyrnudeildin sýndi svo metnað sinn í verki með stórum ráðningum á haustmánuðum þegar Ólafur Kristjánsson var ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna og  Sigurvin Ólafssyni þjálfari meistaraflokks karla og honum til aðstoðar Þróttarinn Hans Sævarssyni.

Sjálfboðaliðastörfin og skipulagning þeirra eru mörg sem stjórnarmenn Knattspyrnudeildar Þróttar leggja á sig svo tannhjólin snúist örugglega á ári hverju. Tímabil knattspyrnunnar er langt og því um heilsárs sjálfboðaliðastarf að ræða sem enginn gæti unnið nema að hafa mikla ástríðu fyrir félaginu. Það öfluga starf sem hefur verið unnið á undanförnum árum innan knattspyrnudeildar er svo sannarlega farið að skila sér á knattspyrnuvellinum.

Mikið var lagt á blakdeild Þróttar við lokun Laugardalshallar árið 2020 og er deildina enn í dag að glíma við afleiðingar þeirra tíma með manneklu í stjórn og skort á leikmönnum. Deildin var um árabil ein sigursælasta blakdeild landsins og raunar fáar deildir á Íslandi sem státa af jafn mörgum mótasigrum og blakdeild Þróttar.

Úrvalsdeilarlið kvenna í blaki endaði tímabilið 2022-2023 í 6. Sæti. Hópurinn breyttist mikið yfir sumarið, miklar breytingar voru á leikmannahópnum og nýir leikmenn tóku við. Fyrri hluti tímabilsins 2023-2024 er nú að ljúka og er Þróttur í 7. sæti deildarinnar. Þjálfari úrvalsdeildarliðs á síðasta tímabil var Gonzalo Garcia Rodriguez og samið var við hann aftur í haust.

Í fyrsta sinn í áratug er Þróttur með karlalið í blaki skráð á Íslandsmót. U20 lið karla keppir í 1. deild en einnig keppa þeir í 3. deild. Strákarnir hafa tekið miklum framförum og er stefna félagsins á áframhaldandi uppbyggingu karlaliði Þróttar.

U20 lið kvenna keppir í 1. deild og er sú deild samblanda af 1. deildar liðum og U20 liðum. Einnig keppa þær í 5. deild. Liðið keppti í 4. deild tímabilið 2022-2023 og féll því um deild.

Auk yngri flokka og meistaraflokks eru tvö lið Þróttar skráð í 2. og 3. deild í Íslandsmótinu. Báðum liðum gengur vel og stefna á sæti ofarlega í sínum deildum. Þessi tvö lið eru mönnuð leikmönnum á öllum aldri, frá 17 ára til 50 ára. 

Yngri flokkarnir í blaki hjá Þrótti eru farnir að stækka aftur eftir mikið bakslag sem fylgdi lokun Laugardalshallar, nú æfa krakkar í flestum aldurshópum. Liðin keppa í sínum aldursflokk á mótum á vegum Blaksambandsins.

Í upphafi þessa árs sendu aðalstjórnir Þróttar og Ármanns frá sem sameiginlega ályktun er varðar uppbygginu Þjóðarhallar í Laugardal. Í ályktuninni fagna íþróttafélögin áformum um að Þjóðarhöll verði staðsett í Laugardal. Félögin setja hins vegar mikla fyrirvara við þá hugmynd að Þjóðarhöll leysi aðstöðuvanda íþróttafélaganna í dalnum.

Er það mat Þróttar og Ármanns að mannvirkið, eins og það hefur verið kynnt, muni ekki anna þörf hverfisfélaganna fyrir æfingatíma fyrir börn, unglinga og meistaraflokka. Þá telja félögin einsýnt, miðað við kynntar tillögur um rekstur Þjóðarhallar, að æfingar félagsfólks, barna, unglinga og meistaraflokka, muni verða víkjandi í starfsemi mannvirkisins, eins og er nú staðan þegar kemur að æfingum í Laugardalshöll. Það er óviðunandi af hálfu félaganna.

Þá virðist ljóst að ekki stendur til að gera breytingar á rekstri Laugardalshallar og að íþróttafélögin verði áfram víkjandi í henni, líkt og verið hefur undanfarna áratugi með þeim afleiðingum sem allir þekkja. Laugardalshöllin mun því aldrei anna starfsemi Þróttar og Ármanns auk þess sem skólarnir í hverfinu mæta afgangi áfram, ef svo fer fram sem horfir.

Aðstöðuvandi hverfisfélaganna í Laugardal er bráðamál. Brotthvarf yngri iðkenda vegna skorts á æfingaaðstöðu er raunverulegt vandamál sem félögin glíma við af vaxandi þunga. Þessi skortur hamlar uppbyggingu íþrótta- og æskulýðsstarfs í Laugardalnum.

Þessu til stuðnings eru staðreyndir um lokanir Laugardalshallar á haustönn 2023 og vorönn 2024:

Fyrir áramót (september-desember)  falla niður: 

  • 16 dagar vegna viðburða Íþrótta og sýningarhallarinnar
  • 10 dagar vegna íþróttaviðburða ekki á vegum Þróttar eða Ármanns
  • Samtals 26 dagar

Eftir áramót (janúar-maí) falla niður:

  • 22 dagar vegna viðburða Íþrótta og sýningarhallarinnar
  • 27 dagar vegna íþróttaviðburða ekki á vegum Þróttar eða Ármanns
  • Samtals 49 dagar.

Það verða níu dagar mögulegir til æfinga í febrúar 2024, átta æfingadagar mögulegir í mars eða alls 17 æfingadagar yfir tveggja mánaða tímabil sem er með öllu ásættanlegt fyrir barna- og unglingastarf Laugardalsins.

Árið 2024 verður viðburðarríkt í Þróttarheimili þar sem félagið verður 75 ára á næsta ári og blakdeild félagsins sem er með elstu starfandi blakdeildum á landinu og elsta starfandi blakdeild í Reykjavík, mun fagna 50 ára afmæli sínu. Nýr framkvæmdastjóri Jón Hafsteinn Jóhannsson mun taka til starfa á nýju ári og mun María Edwardsdóttir taka við nýrri stöðu fjármálastjóra félagsins, saman munu þau ásamt Hall Hallssyni íþróttastjóra skipa eina öflugustu skrifstofu íþróttafélags á landinu. Þetta endurspeglar þann metnað sem félagið hefur sett sér við eflingu innviða þess. Ný stefna Þróttar sem samþykkt hefur verið af aðalstjórn félagsins verður innleidd á árinu 2024 og öllum aðgengileg á heimasíðu félagsins.

Aðalstjórn Þróttar þakka öllum iðkendum, starfsfólki, þjálfurum, sjálfboðaliðum, foreldrum, ráðum deilda félagsins og nefndarfólki fyrir óeigingjarnt starf í þágu félagsins á árinu sem senn er að líða og óskar Knattspyrnufélagið Þróttur, ykkur og fjölskyldum ykkar velfarnaðar og góðrar heilsu á nýju ári.

Áramótakveðja,

Bjarnólfur Lárusson

Formaður aðalstjórnar Þróttar