Íþróttamaður og Þróttari ársins 2023

Þróttari ársins

Tobba hefur lagt mikla vinnu á sig í þágu félagsins og það er varla haldinn viðburður á vegum félagsins eða knattspyrnudeildar þar sem aðstoðar hennar hefur ekki notið við. Vormótið, Reycup, konukvöld og herrakvöld, hún skipuleggur og framkvæmir allt fagmannlega með bros á vör. Grafísk vinna á kynningarefni og auglýsingum fyrir Þrótt hefur lengi verið í hennar höndum. Hún er mikil stemnings manneskja sem annt er um að öllum líði vel og hugsar þess vegna alltaf vel um alla iðkendur. Hún er auðvitað líka fyrirmyndarforeldri og tekur virkan þátt í öllu flokkastarfi og skipulagi.

Hún hefur hannað útlit á efni sem blasir við í félagsheimilinu og á Þróttheimasvæðinu þar sem kjörorð okkar fá að njóta sín. Þrautseigja, þora, njóta og skapa! Þessi kjörorð lýsa Tobbu sjálfri líka óskaplega vel.

Blakari ársins

Blakdeild Þróttar valdi Grím Kristinsson Blakmann ársins 2023.

Grímur er aðeins 15 ára gamall og er virkilega efnilegur leikmaður sem spilar með karlaliði Þróttar í 1. deild ásamt því að spila með yngri flokkum í U20 flokki. Grímur byrjaði að æfa blak í Þrótti árið 2020. Hann er áhugasamur, duglegur og hefur endurtekið sýnt tryggð sína við liðið sitt og félagið. Grímur á stóran þátt í uppbyggingu karlaliðsins í Þrótti. Í dag á Grímur þátt í því að ungt og efnilegt karlalið er í uppbyggingu. Þrátt fyrir að hafa ekki æft blak lengi hefur Grímur tekið miklum framförum undanfarin ár og er ávallt jákvæður og samviskusamur. Grímur er vinnusamur, góður liðsfélagi og á framtíðina fyrir sér í blakinu. Blakdeildin er montin af Grím sem og liðsfélögum hans og við tilnefnum hann með stolti til Íþróttamanns Þróttar árið 2023.

Íþrótta- og knattspyrnumaður ársins

Baldur Hannes Stefánsson er tilnefndur af hálfu Knattspyrnudeildar Þróttar til Íþróttamanns Þróttar 2023.

Baldur er fæddur árið 2002 og er þrátt fyrir ungan aldur einn reyndasti leikmaður félagsins. Hann er fyrirliði Þróttar alla jafna, gríðarlega metnaðarfullur leikmaður, samviskusamur og hvetjandi. Baldur hefur leikið í meistaraflokki félagsins allt frá því hann var í 3ja flokki, skráðir leiki eru ríflega 130 og unglingalandsleikir eru 21.

Baldur hefur alla tíð haldið tryggð við sitt félag, hann lét ekki sitt eftir liggja í 2. deild sumarið 2022 og síðastliðiið sumar átti hann stóran þátt í að karlalið félagsins náði settu marki og hélt sæti sínu í fyrstu deild.

Utan vallar er Baldur einstaklega góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur, hann er efnilegur þjálfari og býr að sterkri tengingu við félagið um árabil. Baldur er gegnheill Þróttari, einn af máttarstólpum síns liðs og verðskuldar sannarlega að vera útnefndur íþrótta- og knattspyrnumaður  ársins hjá Þrótti á árinu 2023.