Eftir aðalfund


Aðalfundur Knattspyrnufélagsins Þróttar var haldinn þriðjudaginn 21. maí síðast liðinn.

Farið var yfir skýrslu stjórnar og ársreikningur félagsins fyrir árið 2023 samþykktur.
Stjórn lagði fram tvær tillögur að lagabreytingum, í fyrri var samþykkt einróma að fjölga varamönnum í aðalstjórn um einn, úr tveimur í þrjá. Seinni tillaga stjórnar sneri að uppfærslu á merki félagsins, tillagan fékk samþykki meirihluta atkvæða en ekki af 2/3 hlutum atkvæðisbærra fundarmanna og öðlast breytingin ekki gildi.
Á fundinum var borin upp tillaga um að vísa vinnu við nýtt merki félagsins í nefnd, en var þeirri tillögu hafnað.
Önnur aðalfundarstörf voru tekin fyrir.

Aðalstjórn Knattspyrnufélagsins Þróttar skipa:
Bjarnólfur Lárusson, formaður
Jóhanna Klara Stefánsdóttir
Halla Björgvinsdóttir
Katrín Atladóttir
Baldur Haraldsson

Varamenn í stjórn
Björn Hlynur Haraldsson
Elísabet Ásmundsdóttir
Einar Örn Einarsson


Hér að neðan má sjá ræðu Bjarnólfs, formanns félagsins sem hann flutti í upphafi fundarins:

Hvað er Þróttur?
Svarið við þeirri spurning er líklega jafn fjölbreytt eins og fjöldi þeirra sem spurður er.

Hvað er Þróttur fyrir einstakling sem þekkir félagið frá tímunum í Grímsstaðaholti við Ægissíðu eða einhvers sem ólst upp með félaginu við Sæviðarsund, ætli þeir horfi sömu augum á félagið eins og einhver sem er nýlega fluttur í Laugardalinn? Eðlilegt er að fólk horfi á félagið frá sínum sjónarhóli en mikilvægt er að allir sýni hvor öðru skilning á því, að fólk tengist félaginu með mismunandi hætti. Þetta á sérstaklega við í sístækkandi félag eins og okkar, en með tilkomu Voga- og Höfðabyggðar inn í félagssvæðið, þá mun félagið allt að tvöfalda sig að stærð á komandi árum.

Þróttur er ekki eingöngu rótgróið íþróttafélag heldur samfélag fólks sem vill skapa jákvætt og öruggt umhverfi fyrir börn og unglinga sem er mikilvægasti hópur félagsins.

Félagið vill veita afreksfólki umgjörð til að vaxa og öðrum iðkendum frá unga aldri til efri ára, tækifæri til að stunda íþrótt sína við góðar aðstæður til heilla fyrir lýð- og geðheilsu iðkenda.

Samfélagið Þróttur á að vera aðgengilegt öllum þeim sem vilja vera þátttakendur í samfélaginu og allir eiga að geta fundið verkefni við sitt hæfi, í þeim fjölbreyttu sjálfboðaliðastörfum sem er félaginu svo nauðsynleg, til að gangverk starfseminnar brotni ekki.

Þess vegna er stefnumótun félagsins sem Aðalstjórn kynnti í upphafi árs mikilvæg (sjá heimasíða), sem setur upp gildinn (Virðing – Árangur – Gleði) og leiðarljósin tíu sem félagið á að starfa eftir til að ná æðstu markmiðum sínum.

Þróttur á að vera eilífðarvélar sem lifir kynslóðir. Það er því mikilvægt að innan félagsins sé jafnrétti milli kynslóða, þar að segja, nýjar kynslóðir þurfa að taka við af þeirri eldri en um leið þarf að vera svigrúm fyrir nýjar kynslóðir til að taka félagið í þá stefnu sem sú kynslóð telur rétta. Við sem komum að félaginu viljum öll skila því frá okkur í betri stöðu heldur en það var, þegar við tókum við því.

Hvert samfélag byggir á auðlindum sínum sem í okkar tilviki eru sjálfboðaliðarnir, starfsfólkið, iðkendur og aðstaða félagsins. Að einhverra mati voru það mistök að gefa frá sér réttinn til byggingu íþróttahúss við Sæviðarsund við flutning félagsins í Laugardal á sínum tíma. Þar sem samstarf félagsins við Laugardalshöllina hefur ekki gegnið vel og félagið hefur ávallt verið gestur í húsinu. Skýrsla Intellecta sem kynnt var félagsmönnum sýndi svo ekki verði um villst að aðstöðumál félagsins fyrir innanhússíþróttagreinar í Laugardal er í lama sessi og hefur verið í lengri tíma. Það verður ekki fyrr en með tilkomu Þjóðarhallar og íþróttahúsanna í Voga- og Höfðabyggð, að hægt verði að uppfylla þarfir félagsins. Það er því augljóst að aðstöðuleysi félagsins fyrir innanhússíþróttagreinar mun vara áfram til næstu ára og verður að teljast ólíklegt að borgin muni leysa þann bráðavanda sem skapast hefur í hverfinu hjá bæði íþróttafélögunum og skólum. Þetta er mikið áhyggjuefni en við ætlum ekki að láta sinnuleysi Reykjavíkurborgar koma niður á starfsemi félagsins. Því er sérstaklega gaman að tilkynna ykkur að Þróttur verður með karla lið á Íslandsmótinu í blaki á komandi tímabili eftir nokkurra ára fjarveru.

Gæði þess að fá aðgengi að Þjóðarhöll verður ómögulegt að segja til um fyrr en rekstrarsamningur um Þjóðarhöllina hefur verið kynntur en aðkoma félagsins að uppbyggingu Þjóðarhallar hefur verið engin og því ómögulegt að segja til um hversu góð viðbót Þjóðarhöllin verður fyrir félagið.

En eitt er ákvörðun borgarinnar að gera ekkert í þeim bráðavanda sem skapast hefur vegna aðstöðuleysis innanhússíþróttagreina félagsins, annað og alvarlegra er að borgin er að sína tilburði til að minnka núverandi aðstöðu félagsins sem getur svo haft bein áhrif á getu félagsins til tekjuöflunar til framtíðar.

Því okkur er það orðið ljóst að Reykjavíkurborg og fleiri aðilar munu á næstu árum ásælast réttindi Þróttar til aðstöðu í Laugardal. Það kom félaginu verulega á óvart að án samtals né samráðs gaf Reykjavíkurborg út að borgin ætli að fara í uppbyggingu á unglingaskóla þvert á vilja íbúa Laugardals sem stóðu í þeirri trú að samkomulag um stækkun hverfaskólana stæði og enn fremur að staðsetning skólans ætti að vera á svæði Þróttar í Miðheimum (áður Þríhyrning). Hér er verið að brjóta alvarlega gegn samningi milli Reykjavíkurborgar og Þróttar frá árinu 1996 en þar segir skýrt að “Þróttur fái endurgjaldslaust afnot af eftirtöldum völlum og svæðum svo lengi sem félagið starfi í Laugardal” og svæðin eru Valbjarnarvöllur, Gervigrasvöllur, æfingavellir:

  1. Svæði suðvestan við Húsdýragarð
  2. Svæði norðan við hús TBR
  3. Svæði milli Skautasvells og Gervigrasvallar

Aðalstjórn Þróttar sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis fyrr í dag þar sem því er harðlega mótmælt að Reykjavíkurborg geti einhliða tekið æfingasvæði barna af félaginu.

Þessi framganga borgarinnar verður mætt af hörku þar sem félagið fær liðsinnis laganefnd félagsins en í henni eru Ólafur Kjartansson hjá Lagastoð, feðgarnir Magnús Haukur Magnússon og Magnús Hrafn Magnússon á lögmannsstofunni Sigurjónsson & Thor.

Ég biðla því til ykkar félagmenn að í þessu grafalvarlega máli þurfum við Þróttarar svo sannarlega að snúa bökum saman, verja okkar hagsmuni, koma okkar skilaboðum skýrt á framfæri til kjörna fulltrúa borgarinnar til að tryggja áframhaldandi réttindi félagsins í Laugardal.

Aðalfundur Þróttar fer með æðsta vald félagsins og hér er rétti vettvangurinn til að ræða og taka mikilvægar ákvarðanir er varða félagið. Hér eru allir félagsmenn jafn réttháir.

Tillaga liggur fyrir fundinn að uppfærðu merki félagsins sem er borin upp af Aðalstjórn. Hugmyndin er ekki eingöngu sprottin upp þaðan heldur einnig frá grasrót félagsins.
Ég fagna þeirri miklu umræðu sem hefur skapast í kringum tillöguna því hún sýnir ástríðu Þróttara fyrir félaginu sínu og þann kraft viljum við svo sannarlega sjá í félagsstarfinu.

Við sem höfum góðfúslega tekið að okkur þá miklu ábyrgð að stýra okkar frábæra samfélagi sem Þróttur er, berum ómælda virðingu fyrir sögu og merki þess. Núverandi útgáfa af félagsmerki Þróttar hefur þjónað félaginu vel í yfir 40 ár og er glæsilegt. Ég skil vel þær tilfinningar sem fylgja því að gera breytingar á félagsmerki og slíkar breytingar verða sjaldnast óumdeildar. Það þarf hugrekki að sækja fram og við Þróttarar höfum svo sannarlega verið að gera það á undanförnum árum. Ég vil trúa því að félagsmenn finni vel fyrir þeirri framþróun sem er að eiga sem stað innan félagsins. Í tengslum við þá miklu framþróun var óskað eftir aðstoð gallharðra Þróttara í Farva, sem hafa unnið við hönnun vörumerkja í áratugi, við að nútímavæða félagsmerkið með framtíðina að leiðarljósi. Þau hafa í sjálfboðavinnu lagt mikla hugsun og vinnu í hönnun að tillögunni. Eiga þau miklar þakkir skilið fyrir sitt framlag en mikilvægt er í hönnun sem þessari að fagfólk vinni að tillögum því mismunandi smekkur fólks og tilfinningar gætu annars haft of mikil áhrif á endaniðurstöðuna.

Ég get ekki ímyndað mér nokkurn þann sem kemur að Þrótti, sem vill ekki eingöngu láta gott að sér leiða og njóta félagsskapsins í samfélaginu. Því hefur orðræðan komið mér á köflum nokkuð á óvart, þar sem gífuryrði eru látin falla sem eiga ekki heima í samtölum á milli félagsmanna.

Í aðdraganda þessa Aðalfundar hef ég sjálfur fengið tölvupóst á netfang mitt í Þrótti, þar sem því er lýst yfir að ég sé ekki Þróttari og ætti að víkja strax og lýsir sá hinn sami að hann muni vinna í því að svo verði. Ég veit fyrir víst að þetta er ekki sá andi sem Þróttarar vilja og tilvik sem þetta eingöngu undantekning frá hinum raunverulega félagsanda Þróttar.

Til að svara slíkum fullyrðingum þá vil ég segja:

  • Ég ólst ekki upp sem Þróttari og gerist ekki Þróttari fyrr en í kringum fertugt.
  • Ég kom inn í starf Þróttar fyrir um 7 árum síðan eftir að Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar hafði sagt af sér vegna ósættis og biðlað var til foreldra að taka við ráðinu sem hafi þá ekki verið starfrækt í einhvern tíma. Á þessum tíma voru skuldir við þjálfara yngri flokka félagsins og oft dróst að greiða þjálfurum laun. Við vorum fjögur sem tókum við BUR og settum fram zero tolerans policy fyrir ógreiddum launum þjálfara sem hefur haldið síðan þá. Það er ekki lengra síðan að orðspor félagsins hafði beðið hnekki því félagið greiddi ekki laun á réttum tímum. Sú sjálfbæra staða félagsins í dag er því ekki sjálfsögð og kostaði mikla vinnu og útsjónarsemi til að komast á þann stað.
  • Frá því að ég tók við sem formaður aðalstjórnar fyrir um 3 árum, hafa verið greiddar upp um 70 m.kr. af skuldum félagsins bæði við opinbera aðila og aðra kröfuhafa. Þessar skuldir voru sem myllusteinn um háls félagsins og með uppgreiðslu þessara skulda hefur myndast nauðsynlegt súrefni í rekstrinum til að byggja upp sterka innviði.
  • Við þessa umbreytingu hefur orðspor félagsins styrkst mikið á stuttum tíma og gefið okkur færi á að styrkja innviði sem hafa aldrei verið sterkari en sú vinna er enn í fullum gangi.
  • Að gefa sig í formennsku Þróttar kostar fórnir og klukkutíma sem ég get fullvissað ykkur um, að ég mundi ekki gera, nema #lifa fyrir klúbbinn. Ég verð því að segja, að ég er algjörlega ósammála þeirri fullyrðingu sem haft var um mig, því í dag er ég mikill Þróttari.

Að undanförnu hefur verið í opinberri umræðu umfjöllun um dæmdan kynferðisbrotamann og mál sem tengdist félaginu fyrir um tveimur áratugum. Félaginu er óheimilt að tjá sig um málið og öll mál á þessum toga. Ég vil upplýsa um það, að félagið vinnur í dag með fyrirbyggjandi aðgerðir, sem dæmi um það þá þurfa allir farastjórar sem fara fyrir hönd félagsins á Gothia Cup í sumar að skila inn hreinu sakavottorði í ofbeldis- og kynferðisbrotamálum áður en farið er af stað í ferðalagið. Komi upp ofbeldis -, kynferðisbrota- eða eineldismál er unnið í málunum til samræmis við verklagsreglum ÍSÍ sem er samræmd viðbragsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf.

Það eru ótal verkefni sem vinna þarf innan félagsins og kröfurnar sem gerðar eru aukast með ári hverju. Það geta engir farþegar verið í stjörnuprýddu starfsliði Þróttar sem telur 4,5 stöðugildi. Starfsemin er afar víðfeðm og maður verður oft meir yfir því hvað hægt er að halda út öflugri starfsemi á jafn fáum starfsmönnum. Ég vil nýta tækifæri til að þakka starfsfólki okkar fyrir óeigingjarnt starf í þágu félagsins og okkar frábæru sjálfboðaliðum fyrir að gera okkar göfugu starfsemi mögulega.

Að lokum vona ég að við munum eiga málefnilegan og uppbyggilegan fund framundan.

#lifi Þróttur