Knattspyrnufélagið Þróttur – 75. ára

Í dag fögnum við þeim merka áfanga að það eru 75 ár liðin frá stofnun Knattspyrnufélagsins Þróttar. Alls voru stofnendur félagsins 37 talsins en aðalstofnendur voru þeir Halldór Sigurðsson og Eyjólfur Jónsson.

Frá stofnun hefur Þróttur lengi verið ómissandi hluti af samfélagi okkar, staður þar sem ungir sem aldnir hafa komið saman til að iðka íþrótt sín og byggt upp ómetanleg vináttubönd. Því Þróttur er svo miklu stærra en einstök úrslit kappleikja því það er fólkið, félagsandinn og gildin okkar (Virðing – Árangur – Gleði) sem gera félagið svo einstakt.

Við getum verið stolt af því sem við höfum áorkað síðustu 75 árin. Barna- og unglingastarf félagsins hefur aldrei verið fjölmennara og kröftugra, Old boys starf félagsins er það allra öflugasta á landinu, mikil og stöðug uppbygging er að eiga sér stað innan meistaraflokka Þróttar, bæði hjá knattspyrnu- og blakdeild félagsins. Aðstöðumálin hafa verið að færast til betra vegar að undanförnu og þá hefur félagsstarfið, kraftur sjálfboðaliðastarfs og starfsmanna til að vinna til góðs fyrir félagið og þá fyrir samfélag okkar, aldrei verið öflugri.

Á þessum tímamótum vil ég þakka stuðningsmönnum Þróttar sem gera umgjörð félagsins ómetanlega, styrktaraðilum sem skjóta stoðum undir starfsemi okkar, iðkendum, foreldrum, þjálfurum og leikmönnum, bæði fyrr og nú, fyrir ómetanlegt framlag til félagsins í gegnum árin. Þið eruð Þróttur. Stuðningur ykkar, hvatning og umhyggja fyrir félaginu hefur haldið starfsemi Þróttar gangandi í gegnum árin.

Framtíðin er björt fyrir Þrótt. Við munum halda áfram að byggja á þeim sterka grunni sem hefur verið lagður og stefnum að nýjum hæðum. Það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að við höldum áfram að vinna saman, styðja hvert annað og treysta á okkar sameiginlegu gildi.

Að lokum vil ég óska Þrótti innilega til hamingju með þessi merku tímamót. Megi félagið okkar blómstra og dafna um ókomin ár, og megi við öll halda áfram að njóta þess að vera hluti af þessari stórkostlegu fjölskyldu sem Þróttur er.

#lifi

Bjarnólfur Lárusson

Formaður aðalstjórnar Þróttar