Baldur Hannes framlengir til næstu þriggja ára

Baldur Hannes Stefánsson, fyrirliði Þróttar hefur framlengt samning sinn við félagið út árið 2026. Baldur er fæddur árið 2002, en hefur engu að síður verið lykilmaður í karlaliði Þróttar til margra ára. Hann lék sína fyrstu meistaraflokksleiki 2018 og keppnisleikir hans með Þrótti nálgast 140. Baldur hefur leikið rúmlega 20 unglinglandsliðsleiki og átt fast sæti öllum yngri landsliðum gegnum árin.

Kristján Kristjánsson, formaður knd. segir: „Það er óþarfi að fara mörgum orðum um þennan áfanga fyrir karlalið meistaraflokks Þróttar og félagið í heild. Baldur Hannes er alger lykilmaður í okkar félagi, mikill og góður Þróttari sem gengur á undan með góðu fordæmi, samviskusemi og dugnaði. Hann missti af þessu tímabili vegna meiðsla en við eru þess fullviss að hann snýr aftur á völinn, enn sterkari en áður og verður í broddi fylkingar í okkar liði næstu árin eins og til stóð.“