Kári Kristjáns íþróttamaður Þróttar 2024

Kári Kristjánsson hefur verið kjörinn Íþróttamaður Þróttar. Kári hefur jafnframt verið útnefndur knattspyrnumaður ársins af hálfu stjórnar Knd. Þróttar. Hann hefur sýnt frábæra frammistöðu með Þrótti árinu. Hann hefur mikinn metnað og vilja sem hefur skilað honum stöðugum framförum í ungum leikmannahópi félagsins.
Kári er fæddur 2004 og hefur leikið tæplega 100 leiki fyrir Þrótt og skorað í þeim 19 mörk. Kári er lykilmaður í liði Þróttar, öflugur miðjumaður sem átti sitt besta tímabil á liðnu sumri. Þar lék hann 21 af 22 leikjum Þróttar í Lengjudeildinni, var markahæsti leikmaður félagsins með 11 mörk og var valinn knattspyrnumaður ársins af félögum sínum í lokahófi Knattspyrnudeildarinnar. Hann var einnig í liði ársins á vefsíðunni fotbolti.net.

Við tilefnið var einnig blak- og knattspyrnufólk félagsins verðlaunað, ásamt þjálfara ársins. Umfjöllun um verðlaunahafa má finna hér að neðan.

Blakmaður ársins – Mateusz Rucinski

Blakdeild Þróttar tilnefnir Mateusz Rucinski til Íþróttamanns Þróttar 2024 og velur hann sem Blakmann Þróttar þetta árið. Velgengni meistaraflokks karla má að stórum hluta þakka Mateusz sem og fleirum leikmönnum liðsins sem söfnuðu hóp saman og mynduðu lið. Mateusz er spilandi þjálfari liðsins og spilar stöðu uppspilara. Í haust fór meistaraflokkur karla í Þrótti að keppa í úrvalsdeild á ný eftir margra ára hlé, liðið hefur farið fram úr væntingum flestra í blaksamfélaginu og er eins og er í 3 sæti og í harðri baráttu við topp 2 liðin.

Ljósmynd, Jón Margeir

Mateusz er næst stigahæsti uppgjafari úrvalsdeildarinnar það sem af er tímabilsins enda þekktur fyrir nær óverjandi uppgjafir. Hann er kraftmikill leikmaður sem stýrir liðinu sínu til sigurs í flestum leikjum og einstaklega laginn leikmaður. Mateusz er hvetjandi, metnaðarfullur og hefur lagt mikla vinnu í blakdeildina sem hefur unnið að því að karlablakið stækki á ný. Mateusz er fyrirmyndarleikmaður í alla staði og er tilnefndur af blakdeildinni til Íþróttamanns Þróttar 2024 með stolti.

Blakkona ársins – Lesly Maryori Pina Vargas

Blakdeild Þróttar tilnefnir Lesly Maryori Pina Vargas til Íþróttamanns Þróttar 2024 og velur hana sem Blakkonu Þróttar þetta árið. Lesly flutti til Íslands árið 2021 og hóf störf sem aðalþjálfari meistaraflokks kvenna tímabilið 2021-2022. Ári seinna var Lesly farin að keppa með liðinu sjálf og hefur síðan þá verið lykilleikmaður í liðinu, reynslumikil og fyrirmynd fyrir aðra leikmenn í liðinu og félaginu. Lesly tók sér hlé frá spilamennsku í fyrra en það endist ekki lengi þar sem hún var komin aftur snemma á þessu ári þegar liðið skorti mannskap. Þá hikaði Lesly ekki við að koma aftur og hjálpa liðinu og hefur spilað samfellt með liðinu síðan. Það má með sönnu segja að Lesly sé búin að gefa sig alla að liðinu frá því að hún flutti til landsins fyrir að verða 4 árum síðan. Lesly spilar stöðu uppspilara og er þekkt fyrir það að vera einstaklega klók og sniðug í sinni stöðu.

Lesly hefur starfað fyrir félagið á ýmsa vegu, hún hefur þjálfað yngri flokkana frá fyrsta degi sem og að hún þjálfaði neðri deildir um tíma. Einnig hefur hún sinnt starfi hér í Þróttaraheimilinu. Hún tekur virkan þátt í uppbyggingu blakdeildarinnar og hefur alltaf haft deildina í fyrsta sæti. Lesly er fyrirmyndarleikmaður, vinnusöm og hvetjandi. Blakdeildin er montin og snortin af því að hafa fengið Lesly í sínar raðir og tilnefnir hana með stolti til Íþróttamanns Þróttar 2024.

Knattspyrnumaður ársins – Kári Kristjánsson

Kári Kristjánsson hefur verið útnefndur knattspyrnumaður ársins af hálfu stjórnar Knd. Þróttar. Kári er fæddur 2004 og hefur leikið tæplega 100 leiki fyrir Þrótt og skorað í þeim 19 mörk.

Ljósmynd, Jón Margeir

Kári er lykilmaður í liði Þróttar, öflugur miðjumaður sem átti sitt besta tímabil á liðnu sumri. Þar lék hann 21 af 22 leikjum Þróttar í Lengjudeildinni, var markahæsti leikmaður félagsins með 11 mörk og var valinn knattspyrnumaður ársins af félögum sínum í lokahófi Knattspyrnudeildarinnar. Hann var einnig í liði ársins á vefsíðunni fotbolti.net.

Kári hefur sinnt fjölmörgum störf fyrir Þrótt frá því snemma á ferlinum, nú er hann þjálfari 4. flokks karla auk þess að vinna á völlum félagsins á sumrin. Kári er einstök fyrirmynd fyrir yngri iðkendur, metnaðarfullur og samviskusamur og Þróttari í merg og bein.

Knattspyrnukona ársins – Jelena Tinna Kujundzic

Jelena Tinna Kujundzic hefur verið útnefnd knattspyrnukona ársins af hálfu stjórnar Knd. Þróttar.

Jelena er fædd 2003 og hefur leikið rúmlega 170 leiki fyrir meistaraflokk Þróttar og gert 5 mörk. Hún hefur að auki leikið 10 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands, nú síðast fyrir u23 ára liðið á árinu sem er að líða.

Jelena hefur verið lykilmaður í kvennaliði Þróttar undanfarin ár og átt stóran þátt í velgengni liðsins í Bestu deild kvenna, hún er sterkur varnamaður og átti mjög gott tímabil með Þrótti á síðasta sumri enda var hún valinn knattspyrnukona ársins af liðsfélögum sínum í lokahófi Knd. Þróttar. Jelena er mjög metnaðarfullur leikmaður, hún hefur leikið allan sinn feril með Þrótti og endurnýjaði nýlega samning sinn til næstu 2ja ára.

Þjálfari ársins – Ingvi Sveinsson

Ljósmynd, Jón Margeir

Ingvi hóf þjálfaraferilinn með að aðstoða í knattspyrnuskóla Þróttar 14 ára gamall sumarið 1993 en þá var Þróttur enn við Holtaveginn. Varð svo fyrst aðstoðarþjálfari árið 1995 í 6.flokki karla og tók svo við sínum fyrsta flokk haustið 2000.

Hefur svo þjálfað nær óslitið síðan þá, lengi vel ásamt því að spila með félaginu. Hann hefur þjálfað flesta árganga, en þó oftast 4.flokk karla, en núna seinasta tímabil þjálfaði hann 4.flokk kvenna og kom liðinu meðal annars í bikarúrslit. Ingvi er með UEFA A þjálfaragráðu, en er einnig kennari í Langholtsskóla þar sem hann hefur kennt í 21 ár. Er greinilega ekkert mikið fyrir að fara út fyrir Laugardalinn. Við vonum bara að Ingvi verði hjá okkur sem lengst og þökkum honum kærlega fyrir sitt framlag til Þróttar öll þessi ár.