Á hátíðarfundi félagsins á gamlársdag voru tveir nýir heiðursfélagar Þróttar heiðraðir og Þróttari ársins útnefndur, ásamt því voru veitt átta silfurmerki og eitt gullmerki Þróttar.
Stjórn og starfsfólk óskar heiðursfélögum, Þróttara ársins og gull- og silfurmerkishöfum innilega til hamingju með útnefninguna með þökkum fyrir frábært starf í gegnum árin í þágu félagsins.
Þróttari ársins 2024
Elmar Svavarsson
Þó sjaldan sé lognmolla í kringum Elmar þá á orðatiltæki okkar Þróttara “ávallt logn í dalnum” vel við hans sjálfboðaliðastörf, því þeim sinnir hann af yfirvegun, elju og með svo frábærri skipulagningu að það veitir öðrum í kring öryggi og ró þó svo allt virðist í skrúfunni. Elmar reddar hlutunum, eflir, hrósar og nærir svanga munna ef þess þarf til að ná því besta fram í öðrum. Þó Elmar sé uppalinn Skagamaður og ber þangað rætur slær einnig blóðheitt Þróttarahjarta hjá okkar manni, hann á þrjú börn sem æfa í Þrótti ásamt því að eiginkona hans Kristín Klara situr nú í Barna – og unglingaráði Þróttar og sinnir sömuleiðis sjálfboðaliðastörfum fyrir félagið af alúð.
Elmar hefur verið sá sjálfboðaliði sem hefur gefið félaginu hvað mest á yfirstandandi ári, hvergi látið sitt eftir liggja og hefur varla verið haldinn sá viðburður á vegum félagsins, BUR eða knattspyrnudeildar sem aðstoðar hans hefur ekki notið við. Elmar var t.a.m. yfirfararstjóri í ferð 3. og 4. flokks karla og kvenna til Svíþjóðar í sumar á Gothia Cup, þar sem um 250 iðkendur félagsins ferðuðust. Elmar hefur einnig komið eins og stormsveipur inn í dómaralífið hjá félaginu og hefur nánast helgað sig dómgæslunni. Áhugi hans og kraftur hefur smitað út frá sér til annarra hjá félaginu, bæði unga sem aldna. Nú á árinu kom hann enn meira að Dómarafélagi Þróttar, hélt utan um tölfræði tengda dómurum og kom öflugur inn í hugmyndavinnu við að stækka og betrumbæta dómarastarfið í Þrótti. Sú vinna er iðkendum til hagsbóta því án dómara er enginn leikur og með góðri dómgæslu verður enn betri leikur til, okkar iðkendum til heilla. Með vinnu sinni við dómaramálin í Þrótti hefur hann komið að því að efla þau og hefur hróður Þróttar farið víða varðandi fagmennsku þegar kemur að bættri dómgæslu og umgjörð í kringum dómarana. Takk Elmar fyrir að vera fyrirmynd fyrir aðra foreldra sem vilja styðja börnin sín og aðra í tómstundum sínum og vera einnig alltaf reiðubúinn að vera til staðar og styðja félagið þitt.
Heiðursfélagar
Kristinn Einarsson,
kom fyrst að störfum fyrir Þrótt í gegnum barna- og unglingastarf félagsins. Árið 2001 varð hann þrettándi formaður Þróttar og var formaður félagsins til 2008. Félagið stóð á krossgötum og hafði nýlega flutt starfsemi sína í Laugardalinn, og mikið mæddi á stjórn og formanni að tryggja rekstrargrundvöll félagsins. Hann sinnti jafnframt formennsku í knattspyrnudeild frá 2001 til 2006. Kristinn átti stóran þátt í því að koma hinu vinsæla knattspyrnumóti ReyCup á laggirnar, árið 2002. Hann hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar, Knattspyrnusambands Íslands og Knattspyrnuráðs Reykjavíkur fyrir störf sín.
Hjartans þakkir, Kristinn, fyrir allt sem þú hefur gert fyrir Þrótt!
Gunnar H. Baldursson,
eða Gunni Bald, ólst upp í Skerjafirðinum og gekk ungur að árum í raðir Þróttar. Hann lék upp alla yngri flokka félagsins og hefur verið viðloðandi starfs félagsins alla tíð síðan. Gunnar á heiðurinn á núverandi félagsmerki, sem hann endurhannaði um 1980. Á 9. og 10. áratugnum stóð hann fyrir því að festa á filmu ýmsa áfanga í sögu félagsins, heimildir sem félagið er ríkt af í dag. Hann var m.a. í forsvari fyrir sameinað lið meistaraflokka Þróttar og Hauka í kvennaknattspyrnunni, árið 2003. Hann var einn þeirra sem kom á fót HM-hópnum innan Þróttar, sem hefur staðið fyrir viðburðum á borð við „Lambalæri að hætti mömmu“. Gunnar hefur undanfarin ár starfað innan Sögu- og minjanefndar Þróttar og árið 2019 átti hann heiðurinn að hönnun á sögusýningu félagsins. Gunnari er margt til lista lagt og árið 2017 hlaut hann heiðursverðlaun Eddunar, fyrir framlag sitt til á sviði sjónvarps- og kvikmynda. Hann hefur hlotið gullmerki, Þróttar, Hauka í Hafnafirði og Knattspyrnusambands Íslands fyrir störf sín.
Hjartans þakkir, Gunni, fyrir allt sem þú hefur gert fyrir Þrótt!
Gullmerki:
Guðberg Konráð Jónsson
Það er okkur mikill heiður að veita Guðbergi Konráð Jónsson gullmerki Knattspyrnufélagsins Þróttar fyrir einstakt og ómetanlegt framlag hans til félagsins. Guðberg hefur um árabil verið sannur guðfaðir Oldboys Þróttar og hefur með óbilandi eldmóði og hvatningu gert Oldboys starf félagsins að því sem það er í dag – einstakt á heimsvísu.
Oldboys Þróttar býður sínum 200 liðsmönnum upp á daglegar æfingar, allt árið um kring – 365 daga ársins – og á flestum virkum dögum eru tvær æfingar í boði. Slíkur fjöldi leikmanna, bæði karla og kvenna á öllum aldri, undir merkjum eins félags, er líklega einsdæmi í heiminum. Þetta starf, undir leiðsögn Guðbergs, er ekki aðeins skemmtilegt heldur einnig einstakt lýðheilsuverkefni.
Guðberg heldur einnig utan um alþjóðlegt knattspyrnumót fyrir eldri leikmenn, sem fer stækkandi á ári hverju, og hefur það orðið mikilvægur hluti af starfi félagsins.
Guðberg hefur áður verið sæmdur silfurmerki félagsins, og með þessari gullmerkjaveitingu viðurkennum við enn frekar hans framúrskarandi framlag.
Hjartans þakkir, Guðbergur, fyrir allt sem þú hefur gert fyrir Þrótt!
Silfurmerki:
Eldey Hrafnsdóttir, Elísabet Nhien Yen Huynh og Dana Gunnarsdóttir
Það er okkur mikill heiður að heiðra Eldeyju Hrafnsdóttur, Elísubetu Nhien Yen Huynh og Dönu Gunnarsdóttur fyrir þeirra einstaka framlag til blakdeildar Þróttar. Þessar ungu og kraftmiklu konur hafa með mikilli vinnusemi, tekið ábyrgð og stigið stór skref til að tryggja framtíð blaksins hjá félaginu. Framlag þeirra sem leikmenn, stjórnarmenn, þjálfarar í yngri flokka starfi og neðri deilda blaki félagsins er ómetanlegt. Þetta hafa þær gert á erfiðum tímabili, þar sem aðstöðuleysi félagsins var mikið vegna lokunar Laugardalshallar og starfsemi deildarinnar á mörgum stöðum.
Ef ekki væri fyrir þeirra tilstuðlan hefði verið raunverulegur möguleiki að meistaraflokkur kvenna hefði lagst af, en með ótrúlegri útsjónarsemi og samstöðu hafa þær tryggt áframhaldandi starfsemi hans. Jafnframt hafa þær staðið að uppbyggingu meistaraflokks karla, sem hafði lagst niður tímabundið, og með þeirra krafti og trú á verkefnið hefur flokknum verið komið á fætur að nýju svo eftir hefur verið tekið.
Með framlagi sínu hafa Eldey, Elísabet og Dana sýnt að það er ekki sjálfsagt að halda úti öflugri deild innan félagsins – það krefst ástríðu, ábyrgðar og fórnfýsi. Þær eru fyrirmyndir allra í félaginu, og við erum afar þakklát fyrir þeirra óeigingjörnu störf.
Því er það með mikilli gleði og stolti sem við veitum Eldeyju, Elísabetu og Dönu silfurmerki Þróttar í dag – tákn um þakklæti og virðingu fyrir þeirra ómetanlega framlag.
Hjartans þakkir, Eldey, Elísabet og Dana!
Kristófer Ólafsson
Það er okkur mikill heiður að heiðra Kristófer Ólafsson fyrir ómetanlegt framlag hans til Knattspyrnufélagsins Þróttar. Kristófer hefur í gegnum árin unnið af einstökum dugnaði, ósérhlífni og vinnusemi við að efla starf félagsins á öllum sviðum.
Hvort sem um er að ræða undirbúning viðburða, leiki Þróttar, landsleiki á Laugardalsvelli, sveitaböll eða Þorrablót, þá er Kristófer ávallt fremst í flokki, tilbúinn að leggja hönd á plóg og tryggja að allt gangi upp. Hans óbilandi kraftur og áhugi hafa skapað sterkan grunn fyrir öfluga og samheldna starfsemi innan knattspyrnudeildarinnar.
Stuðningur hans við þjálfara og leikmenn hefur verið ómetanlegur, og hans metnaður og jákvæðni hafa verið lykilatriði í því að halda Þrótti í fremstu röð. Ástríða Kristófers fyrir samfélaginu í Þrótti, sem og velgengni félagsins, hefur verið innblástur fyrir alla innan félagsins.
Því er það með mikilli gleði og stolti sem við veitum Kristófer silfurmerki Þróttar í dag – tákn um þakklæti og virðingu fyrir hans einstöku störf.
Hjartans þakkir, Kristófer!
Ólafur Kjartansson
Það er okkur mikill heiður að heiðra Ólaf Kjartansson fyrir ómetanlegt framlag hans til Knattspyrnufélagsins Þróttar. Með einstökum metnaði, ósérhlífni og ástríðu fyrir Þrótti, hefur Ólafur í gegnum árin lagt sitt af mörkum til uppbyggingar barna- og unglingastarfsins, sem og meistaraflokka karla og kvenna. Ólafur hefur verið stoð og stytta í framkvæmd ReyCup – Vormótsins, sem og í mikilli uppbyggingu barna- og unglingastarfsins á undanförnum árum. Hans hlutverk í stefnumótun knattspyrnudeildar hefur stuðlað að því að fjölmargir uppaldir leikmenn spila nú fyrir meistaraflokka félagsins, sem leggur traustan grunn að framtíð knattspyrnunnar hjá Þrótti.
Ástríða Ólafs fyrir velgengni félagsins og hans einlægi stuðningur hafa haft djúp áhrif á alla starfsemi Þróttar. Sérstaklega má nefna mikilvægi hans í laganefnd félagsins, sem hefur staðið vörð um hagsmuni Þróttar á viðkvæmum tímum þar sem ágreiningur við Reykjavíkurborg um lögmæti svæða félagsins eru í brennidepli.
Því er það með mikilli gleði og stolti sem við veitum Ólafi silfurmerki Þróttar í dag – tákn um þakklæti og virðingu fyrir hans framúrskarandi störf.
Hjartans þakkir, Ólafur!
Pála Þórisdóttir
Það er okkur sannur heiður að heiðra Pálu Þórisdóttur fyrir ómetanlegt framlag hennar til Knattspyrnufélagsins Þróttar. Pála hefur í gegnum árin lagt sitt af mörkum með einstökum metnaði og óeigingjörnum störfum, sérstaklega í uppbyggingu meistaraflokka karla og kvenna hjá félaginu. Sérstakar þakkir hlítur Pála fyrir störf hennar fyrir kvennaknattspyrnuna í Þrótti en með víðsýni, krafti og óbilandi trú á möguleikum kvennaknattspyrnunnar í félaginu hefur hún unnið að því að hækka rána innan félagsins og komið félaginu í fremstu röð á Íslandi. Hún hefur átt stóran þátt í að efla meistaraflokk kvenna og leggja grunninn að þeirri velgengni og uppbyggingu sem sést í dag. Stuðningur hennar við þjálfara og leikmenn liðsins hefur verið ómetanlegur í gegnum árin.
Á undanförnum árum hefur jafnrétti milli karla og kvenna knattspyrnu verið hvað mesti í Þrótti af öllum félögum á Íslandi, á Pála stóran þátt í þeirri þróun og er Þróttur eitt framsæknasta félag landsins í jafnréttindarmálum í dag.
Ástríða Pálu fyrir jafnrétti, velgengni og samstöðu Þróttar hefur haft djúp áhrif á starfsemina og við erum afar þakklát fyrir þann tíma og orku sem hún hefur veitt félaginu.
Þess vegna er það með mikilli gleði og stolti sem við veitum Pálu silfurmerki Þróttar í dag – tákn um þakklæti og virðingu fyrir hennar framúrskarandi störf.
Hjartans þakkir, Pála!
Axel Gomez
Það er okkur mikill heiður að heiðra Axel Gomez fyrir ómetanlegt framlag hans til Knattspyrnufélagsins Þróttar. Axel, sem fyrrverandi markmaður meistaraflokks, hefur ekki aðeins skarað fram úr á vellinum heldur einnig utan hans með störfum sínum í þágu félagsins.
Axel hefur verið lykilaðili í því að tryggja öflugt samstarf við einn stærsta styrktaraðila félagsins, Avis. Hans dugnaður, samskiptahæfni og einlægi áhugi á framtíð félagsins hafa skilað ómetanlegum stuðningi sem hefur styrkt Þrótt bæði fjárhagslega og ímyndunarlega.
Sem fyrrverandi leikmaður hefur Axel stuðlað að velgengni og samstöðu innan félagsins. Hans framlag hefur skapað sterkan grunn fyrir áframhaldandi uppbyggingu og árangur Þróttar.
Því er það með mikilli gleði og stolti sem við veitum Axel silfurmerki Þróttar í dag – tákn um djúpa þakklæti og virðingu fyrir hans einstöku störf.
Hjartans þakkir, Axel!
María Edwardsdóttir
Það er okkur mikill heiður að heiðra Maríu Edwardsdóttur fyrir ómetanlegt framlag hennar til Knattspyrnufélagsins Þróttar. María hefur í gegnum árin lagt sitt af mörkum með einstökum metnaði og fagmennsku, bæði sem framkvæmdastjóri félagsins og nú sem fjármálastjóri. Það hafa því verið óljós skilin á milli þess hvenær vinnidegi Maríu lýkur og sjálfboðastarf hennar hefst. María hefur verið lykilaðili í að skapa stöðugleika í rekstri félagsins og eflt innri starfsemi þess sem hafa haft ómetanleg áhrif á styrkingu og skilvirkni starfsemi skrifstofu Þróttar. Það er fátt innan félagsins sem er Maríu óviðkomandi og er hún orðið eins konar mamma allra iðkenda félagsins. Hennar ósérhlífni og dugnaður hafa lagt grunn að sjálfbærum rekstri, sem hefur styrkt Þrótt á öllum sviðum, frá barna- og unglingastarfi til meistaraflokka.
Ástríða Maríu fyrir velgengni Þróttar og trú á framtíð félagsins hafa verið ómetanleg. Því er það með mikilli gleði og stolti sem við veitum Maríu silfurmerki Þróttar í dag – tákn um þakklæti og virðingu fyrir hennar einstöku störf. Hjartans þakkir, María!
Myndir frá deginum teknar af Jóni Margeiri