Þakkir til sjálfboðaliða – sigur Þróttar innan sem utan vallar
ReyCup er ein af mikilvægustu stoðum Þróttar – ekki eingöngu út frá rekstri heldur einnig þegar kemur að ásýnd félagsins og félagslegu hlutverki þess. ReyCup 2025 var einstaklega vel heppnað knattspyrnumót, og mikil ánægja ríkti með framkvæmdina í heild. Það er fyrst og fremst að þakka öflugu starfsfólki félagsins – og þá ekki síst þeim rúmlega 200 sjálfboðaliðum sem tóku þátt í undirbúningi og framkvæmd mótsins í ár. Án þeirra væri ReyCup einfaldlega ekki mögulegt.
ReyCup 2025 stóð með glæsibrag undir nafni sem alþjóðlegt knattspyrnumót fyrir ungmenni sem sameinar fótbolta og gleði. Í ár tókum við á móti rúmlega 100 liðum og um 2.000 keppendum. Þróttur átti glæsilega fulltrúa innan vallar sem stóðu sig frábærlega og voru félaginu sannarlega til sóma. Hápunktur mótsins var úrslitaleikur 3. flokks karla, þar sem okkar strákar höfðu sigur gegn Austurlandi, 4-1, á Laugardalsvelli – á einu fallegasta sviði íslenskrar knattspyrnu.
Sigur Þróttar á ReyCup í ár var því ekki aðeins innan vallar – heldur líka utan hans. Skipulag, viðmót, þátttaka og andi sjálfboðaliðanna sýndu í verki hvað Þróttur stendur fyrir.
Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem komu að mótinu – keppendum, þjálfurum, fjölskyldum, styrktaraðilum og starfsfólki – og sérstaklega sjálfboðaliðunum okkar, sem með samheldni og jákvæðni gerðu ReyCup að því sem það er.
Við horfum þegar til næsta árs – #Lifi Þróttur og lengi lifi ReyCup!
F.h. Þróttar,
Bjarnólfur Lárusson
Formaður aðalstjórnar Knattspyrnufélagsins Þróttar
