Ólafur Helgi Kristjánsson lætur af störfum sem þjálfari meistaraflokks kvenna að loknu tímabili og verður aðstoðarþjálfari A-landsliðs kvenna.
Ólafur Helgi Kristjánsson mun láta af störfum sem þjálfari meistaraflokks kvenna Þróttar þegar yfirstandandi keppnistímabili lýkur. Hann hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari A-landsliðs kvenna og mun hefja störf hjá KSÍ um leið og hann hættir hjá Þrótti.
Ólafur mun einnig sinna þróun og stefnumótun hjá yngri landsliðum kvenna og ýmsum verkefnum tengdum fræðslumálum hjá KSÍ.
Ólafur tók við Þrótti haustið 2023 og hefur á þeim tíma unnið ötullega að því að efla meistaraflokk kvenna og félagið í heild. Undir hans stjórn hefur liðið sýnt miklar framfarir og fest sig enn betur í sessi í toppbaráttu Bestu deildar eins og staða liðsins sýnir glögglega.
Þróttur þakkar Ólafi kærlega fyrir hans störf og þann metnað sem hann hefur sýnt og óskar honum velfarnaðar í nýjum og spennandi verkefnum hjá KSÍ. Félagið lítur á það sem viðurkenningu fyrir áherslu sína á kvennaknattspyrnu að leitaði sé til Þróttar eftir landsliðsþjálfara.
Leit að nýjum þjálfara meistaraflokks kvenna er þegar hafin og verður tilkynnt um niðurstöðu hennar þegar þar að kemur.
