Sigurvin Ólafsson, þjálfari karlaliðs Þróttar hefur skrifað undir samning um að þjálfa lið Þróttar út árið 2028. Sigurvin tók við liðinu haustið 2023 og hefur stjórnað því síðan. Sumarið 2024 lenti liðið í 7da sæti Lengjudeildarinnar og bætti verulega árangur sinn frá því árið áður. Á þessu ári varð 3. sætið hlutskipti liðsins eftir hreinan úrslitaleik um efsta sætið í haust. Framfarirnar hafa því verið miklar og augljósar. Sigurvin er að góðu kunnur í íslenskri knattspyrnu, hann var frábær leikmaður, er fimmfaldur Íslandsmeistari og hefur nú sýnt að hann er sömuleiðis framúrskarandi þjálfari.
Kristján Kristjánsson, formaður Knd. Þróttar segir; ,,Við lögðum höfuðáherslu á að framlengja við Sigurvin, enda hefur samstarf hans við leikmenn og stjórn verið sérstaklega gott og árangurinn eftir því. Við höfum byggt upp betra lið með hverju árinu sem líður og við stefnum að því að bæta árangur okkar enn frekar á næstu árum. Stjórn Knattspyrnudeildar Þróttar telur engan vafa á því að Sigurvin sé rétti maðurinn til að leiða það starf sem framundan er og fagnar því áframhaldandi samvinnu af heilum hug.”
Aðspurður um framtíðina segir Sigurvin sjálfur: ,,Ég hef þá einlægu trú að Þróttur verði stórveldi í íslenskri knattspyrnu. Ég sé ekkert sem mælir gegn því, ekkert sem okkur ætti að vanta sem önnur lið hafa. Ég er þakklátur stjórnendum félagsins að treysta mér til að leiða þá vinnu áfram fyrir karlaliðið. Þá er ég sérstaklega þakklátur leikmönnum liðsins fyrir þá miklu vinnu sem þeir hafa lagt á sig undir minni stjórn og það fyrirmyndar hugarfar sem þeir hafa sýnt. Liðið hefur vaxið og bætt sig verulega síðustu árin en við þurfum meira, verðum að gera enn betur. Sameiginlega getum við, með áframhaldandi hvatningu frá stuðningsmönnum, náð hæstu hæðum.”