Hinn efnilegi Fjölnir Freysson hefur skrifað undir sinn fyrsta leikmannasamning við Þrótt og er hann til 3ja ára. Fjölnir er fæddur 2010, er uppalinn Þróttari sem hefur verið lykilmaður í yngri flokkum félagsins og tekið stöðug skref fram á við á undanförnum misserum. Fjölnir leikur jöfnum höndum með 2. og 3. flokki félagsins, er fastamaður í yngri landsliðum Íslands og hefur leikið með bæði U15 og U16 ára liðunum.
Árangur hans er engin tilviljun heldur skýrt merki þann mikla efnivið og vinnusemi sem hann býr yfir. Fjölnir leikur oftast sem miðvörður en líkt og margir yngri leikmenn Þróttar er hann fjölhæfur, með mikla tækni og góðan leikskilning.
Kristján Kristjánsson, formaður Knd. Þróttar segir: ,,Með undirritun þessa samnings tekur Fjölnir mikilvægt skref í átt að meistaraflokki og samningurinn undirstrikar þá trú sem Þróttur hefur á ungum leikmönnum sem hafa alist upp innan félagsins.“
Við óskum Fjölni innilega til hamingju með fyrsta samninginn og hlökkum til að fylgjast með honum blómstra hér í Laugardalnum næstu árin.