Adam Árni Róbertsson í Þrótt

Adam Árni Róbertsson hefur skrifað undir 3ja ára samning um að leika með Þrótti. Adam er fæddur 1999, hann er gríðarlega öflugur framherji sem hefur leikið yfir 180 keppnisleiki og gert í þeim 67 mörk. Hann kemur til Þróttar frá Grindavík þar sem hann lék síðast og var fyrirliði þar. Hann var án nokkurs vafa einn besti framherji Lengjudeildarinnar síðastliðið sumar, gerði þá 14 mörk í 19 leikjum í liði sem barðist við fall stóran hluta tímabilisins. Adam Árni hefur leikið á Suðurnesjunum mestan part síns ferils í meistaraflokki og á að baki 51 leik í efstu deild.

Kristján Kristjánsson, formaður Knd. segir; ,,Við höfum haft augastað á Adam Árni um lengri tíma og lýsum mikilli ánægju með komu hans í Þrótt.  Hann mun styrkja okkar unga og efnilega lið mjög mikið enda hörkuleikmaður. Adam Árni hafði úr mörgum kostum að velja en valdi Þrótt og það segir góða sögu. Við trúum því staðfastlega að koma hans muni styrkja möguleika Þróttar í baráttu fyrir sæti í Bestu deildinni sumarið 2026. .Við bjóðum Adam Árna velkominn í Laugardalinn.”