Óskum eftir tilnefningum – Þróttari ársins 2025

Á gamlársdag mun Knattspyrnufélagið Þróttur, líkt og undanfarin ár, heiðra einstaklinga sem hafa lagt sitt af mörkum til félagsins með óeigingjörnum störfum, jákvæðu hugarfari og óbilandi Þróttaranda. Þar á meðal verður veitt nafnbótin Þróttari ársins 2025, ein virðulegasta viðurkenning félagsins.

Á undanförnum árum hafa einstaklingar á borð við Elmar Svavarsson (2024), Tobbu (2023) og Ásmund Helgason (2022) hlotið titilinn. Þau eiga það sameiginlegt að hafa gefið Þrótti af tíma sínum, eldmóði og jákvæðu framlagi sem styrkir og sameinar samfélagið okkar í Laugardalnum.

Nú leitum við til ykkar – félagsmanna, foreldra, iðkenda, þjálfara og allra Þróttara – að senda inn tilnefningar um þann einstakling sem ykkur finnst eiga heiðurinn í ár.

Hvern má tilnefna?

  • Alla sem hafa starfað í þágu Þróttar á árinu 2025
  • Sjálfboðaliða sem hafa lagt sig sérstaklega fram
  • Einstakling sem hefur verið fyrirmynd í starfinu
  • Foreldra, iðkendur, þjálfara eða stuðningsmenn sem hafa farið fram úr væntingum

Hvar skila ég inn tilnefningunni?

Smelltu hér til að skila inn tilnefningu !

Frestur til að skila inn tilnefningum er til og með 17. desember 2025.

Við hlökkum til að lesa tilnefningarnar og finna saman þann einstakling sem á hvað skilið að hljóta nafnbótina Þróttari ársins 2025. Starf félagsins stendur og fellur með frábæru fólki og við erum óendanlega þakklát fyrir alla þá sem leggja hönd á plóg á hverju ári.

LIFI 🔴⚪️