Íþróttamaður Þróttar 2025 – Grímur Kristinsson

Grímur Kristinsson hefur verið kjörinn Íþróttamaður Þróttar 2025. Grímur var jafnframt útnefndur blakmaður ársins af hálfu blakdeildar Þróttar, og endurspeglar þessi tvöföldu verðlaun þann mikla árangur og mikilvæga framlag sem hann hefur lagt af mörkum til félagsins á árinu.

Þrátt fyrir ungan aldur, aðeins 17 ára, hefur Grímur skipað sér í hóp lykilleikmanna í meistaraflokki karla í blaki sem um jólin sitja í efsta sæti Unbroken deildarinnar. Hann leikur stöðu líberós, þar sem hann hefur sýnt mikinn stöðugleika, framúrskarandi leikskilning og verið burðarás í varnarleik liðsins.

Framlag Gríms nær þó langt út fyrir frammistöðu á vellinum. Hann hefur verið einn af þeim iðkendum sem lagt hafa grunninn að uppbyggingu karlablaks hjá Þrótti undanfarin ár. Með elju, þrautseigju og metnaði hefur hann, ásamt félögum sínum, átt stóran þátt í því að Þróttur rekur í dag bæði meistaraflokkslið og 1. deildar lið í karlablaki.

Á árinu 2025 var Grímur einnig valinn í U19 landslið karla sem tók þátt í Norður-Evrópumótinu (NEVZA) í Færeyjum. Þar stóð hann sig með mikilli prýði og sýndi að hann á fullt erindi meðal efnilegustu blakmanna landsins.

Val Gríms sem Íþróttamanns Þróttar 2025 er viðurkenning fyrir framúrskarandi árangur, mikla vinnusemi og jákvætt fordæmi innan félagsins.

Við erum afar stolt af Grími og óskum honum innilega til hamingju með verðlaunin og áframhaldandi velgengni í íþróttum og starfi með félaginu.

#LIFI