Á hátíðarfundi Knattspyrnufélagsins Þróttar á gamlársdag voru veittar viðurkenningar til einstaklinga sem hafa með framúrskarandi framlagi sínu, elju og metnaði sett sterkan svip á starf félagsins á árinu 2025.
Auk afreksverðlauna í íþróttastarfi voru veittar sérstakar viðurkenningar. Viðurkenningin Þjálfari ársins var veitt einstaklingi sem með frumkvæði, fagmennsku og jákvæðni hefur haft varanleg áhrif á starf félagsins, innan vallar sem utan og þá hlaut einnig Þróttari ársins viðurkenningu fyrir óeigingjarnt starf, ósérhlífni og ómetanlegt framlag til samfélags Þróttar.
Á fundinum voru jafnframt veitt heiðursverðlaun félagsins, þar á meðal silfurmerki og gullmerki Þróttar, til einstaklinga sem með áralöngu starfi og tryggð hafa lagt grunn að þeirri góðu starfsemi og menningu sem félagið byggir á í dag.
Að lokum voru þrír einstaklingar sæmdir nafnbótinni Heiðursfélagi Þróttar, æðstu viðurkenningu félagsins, fyrir einstakt framlag til félagsins.
Á hátíðarfundinum var einnig sérstaklega heiðrað landsliðsfólk Þróttar sem lék fyrir hönd Íslands á árinu 2025. Að klæðast landsliðstreyju er stór áfangi fyrir hvern íþróttamann og staðfesting á þeirri vinnu, metnaði og fagmennsku sem lögð er í daglegt starf.
Þróttur er afar stoltur af þeim iðkendum sem náð hafa þessu marki og endurspeglar árangur þeirra öflugt barna- og unglingastarf félagsins.
Landsliðsfólk Þróttar á árinu

U15
Aron Mikael Vilmarsson
Kristinn Kaldal
U16
Fjölnir Freysson
Leó Hrafn Elmarsson
U17
Jakob Ocares Kristjánsson
Björn Darri Oddgeirsson
Hekla Dögg Ingvarsdóttir
Þórdís Nanna Ágústsdóttir
Ninna Björk Þorsteinsdóttir
U19 & Strandblak
Grímur Kristinsson
U19
Brynja Rán Knudsen
Björg Gunnlaugsdóttir
Kolbeinn Nói Guðbergsson
U23
Mist Funadóttir
Freyja Karín Þorvarðardóttir
Þjálfari ársins – Jens Sævarsson

Jens er afar verðugur handhafi viðurkenningarinnar Þjálfari ársins. Hann hefur sýnt einstakt frumkvæði og metnað í starfi sínu fyrir Þrótt, ekki síst með stofnun hlaupahóps Þróttar og Hliðarlínunnar, sem er þrekhópur fyrir karla. Báðir þessir hópar hafa vaxið hratt, notið mikilla vinsælda og skapað öflugt og lifandi æfingasamfélag fyrir miðaldra iðkendur allt að fimm sinnum í viku.
Ferill Jens innan félagsins spannar þó mun meira því hann lék með meistaraflokki karla um árabil með góðum árangri og er einn leikjahæsti leikmaður félagsins með 227 leiki fyrir félagið.
Á síðari árum hefur Jens einnig lagt stund á dómgæslu í knattspyrnu með góðum árangri á sama tíma og hann stundar nám við íþróttafræði við Háskóla Íslands. Þessi fjölbreytti bakgrunnur sem leikmaður, þjálfari, dómari og nemandi gerir hann að fyrirmynd innan félagsins og styrkir þá fagmennsku sem hann leggur í hvert verkefni.
Með frumkvæði sínu, elju og jákvæðu viðhorfi hefur Jens skapað rými þar sem fólk fær tækifæri til að hreyfa sig, dafna og tilheyra samfélagi Þróttar. Fyrir það starf er hann afar verðugur titlinum Þjálfari ársins.
Blakfólk ársins – Grímur og Katla

Blakmaður ársins – Grímur Kristinsson
Blakdeild Þróttar hefur valið Grím Kristinsson sem blakmann Þróttar 2025. Valið endurspeglar þá miklu framgöngu og mikilvægu hlutverk sem Grímur hefur leikið innan félagsins undanfarin ár. Þrátt fyrir ungan aldur er Grímur orðinn lykilleikmaður í meistaraflokki Þróttar. Hann er aðeins 17 ára gamall og spilar stöðu líberós, eða varnarmanns, þar sem hann hefur sýnt frábæran stöðugleika, leikskilning og styrkt varnarleik liðsins verulega.
Framlag Gríms til uppbyggingar karlablaks hjá Þrótti er ómetanlegt. Hann hóf að æfa blak fyrir nokkrum árum ásamt litlum hópi stráka, en með þrautseigju, elju og metnaði hefur þessi hópur stækkað og eflst. Í dag rekur Þróttur bæði meistaraflokkslið og 1. deildar lið í karlaflokki, og má með sanni segja að framganga Gríms og félaga hans hafi lagt grunninn að þessari starfsemi. Fyrir þetta er blakdeild Þróttar afar þakklát og lítur á Grím sem fyrirmynd fyrir aðra iðkendur félagsins.
Á árinu 2025 var Grímur valinn í U19 landslið karla sem tók þátt í Norður-Evrópumótinu NEVZA sem haldið var í Færeyjum í október. Þar stóð hann sig með sóma og sýndi að hann á fullt erindi á meðal efnilegustu leikmanna landsins.
Blakkona ársins – Katla Hrafnsdóttir
Blakdeild Þróttar hefur valið Kötlu Hrafnsdóttur sem blakkonu Þróttar 2025. Þessi útnefning er fullkomlega verðskulduð og endurspeglar bæði framlag Kötlu til félagsins og þá ótrúlegu elju og metnað sem hún hefur sýnt á sínum ferli.
Katla hóf að spila með meistaraflokki Þróttar aðeins 13 ára gömul, sem sýnir hversu óvenjulega hratt hún steig sín fyrstu skref inn í efsta þrepið. Hún byrjaði sem miðja og komst fljótlega í byrjunarliðið þar sem hún heillaði bæði þjálfara og liðsfélaga með ákafa, vinnusemi og ótrúlegri sóknarfærni. Með tímanum þróaðist leikur hennar enn frekar og í dag spilar hún stöðu díó, þar sem hún nýtir styrk sinn, leikskilning og áræðni til að vera ein öflugasta sóknarkona liðsins. Hún er meðal stigahæstu leikmanna Þróttar og gegnir lykilhlutverki í liði sem byggir mikið á krafti og stöðugleika hennar.
Á unglingsárum sínum tók Katla þátt í fjölmörgum U-landsliðsverkefnum og á að baki fjölda unglingalandsliðsleikja. Þau verkefni styrktu hana sem leikmann og gáfu henni dýrmæta reynslu sem hún nýtir í dag í meistaraflokki.
Ferill Kötlu hefur þó ekki alltaf verið auðveldur. Hún hefur mætt ýmsum áföllum en sýnt ótrúlega þrautsegju og getu til að nýta blakið sem styrktarstoð í gegnum áföllin. Hún er fyrirmynd þegar kemur að því að nýta íþróttir sér til góðs og sýnir með eigin fordæmi hvernig blakið getur eflt bæði andlega og líkamlega heilsu. Með jákvæðu hugarfari og sterkum innri drifkrafti er hún öðrum iðkendum hvatning til að rækta sjálfa sig í gegnum íþróttina.
Knattspyrnufólk ársins – Brynjar og Mollee

Knattspyrnumaður ársins –
Brynjar Gautur Harðarson
Brynjar Gautur Harðarson er knattspyrnumaður ársins í karlaflokki. Brynjar er fæddur árið 2004 og hefur leikið allan sinn feril með Þrótti.
Hann hefur leikið rúmlega 50 leiki með meistaraflokki félagsins og tekið að sér æ stærra hlutverk á síðustu árum. Brynjar er miðjumaður, bæði góður varnar- og sóknarmaður, með mikla tækni og góðan leikskilning.
Brynjar er leikmaður sem getur náð mjög langt á knattspyrnusviðinu og einn fjölmargra ungra Þróttara sem mynda kjölfestu í karlaliði félagsins þessa dagana.
Síðastliðið tímabil var hið besta hjá Brynjari sem alltaf leggur sig allan fram og lyftir liðsheild Þróttar með leik sínum.
Knattspyrnukona ársins – Mollee Swift
Mollee Swift er knattspyrnumaður ársins í kvennaflokki í Þrótti. Mollee er Bandaríkjamaður, fædd árið 2001 og mun á árinu 2026 leika sitt þriðja ár með Þrótti en nýverið skrifaði hún undir samning þess efnis við félagið. Hún hefur leikið 60 leiki með meistaraflokki Þróttar og stóð sig afburða vel á árinu 2025.
Í haust var hún valinn besti markvörður Bestu deildar kvenna og var sú sem oftast hélt hreinu á leiktímabilinu. Mollee er frábær nútímamarkvörður, afburða góð í að verja markið sitt og tekur virkan þátt í leiknum að öðru leyti með góðum sendingum fram völlinn.
Hún er sannarlega einn mikilvægasti leikmaður kvennaliðsins og tekur einnig virkan þátt í starfi knattspyrnudeildarinnar, m.a. með því að leiðbeina yngri markvörðum.

Þróttari ársins – Jón Margeir Þórisson

Maggi hefur síðustu ár unnið ótrúlegt og óeigingjarnt starf fyrir Þrótt. Með myndavélinni að vopni hefur hann fangað augnablikin sem skipta máli – gleðina, spennuna, samstöðuna og metnaðinn og með því ekki aðeins bætt ásýnd félagsins til muna, heldur einnig varðveitt sögu þess fyrir framtíðina. Ánægja iðkenda, foreldra og þjálfara með þetta framtak hefur verið afar mikil og vel verðskulduð.
Maggi mætir jafnt á leiki yngri flokka sem hjá meistaraflokkum, hjá SR og á blakleiki félagsins. Hann hefur fylgt ungum Þrótturum í utanlandsferðir til Oslóar og Gautaborgar, verið á Vormóti og ReyCup, og staðið vaktina við hliðarlínuna í myrkri, kulda og snjó. Allt þetta gerir hann svo að iðkendur félagsins eigi vandaðar og eftirminnilegar myndir af því sem þeim þykir skemmtilegast: að stunda íþróttina sína með Þrótti.
Það sem einkennir Magga ekki síður en dugnaðinn er jákvæðnin. Hann er alltaf brosandi, alltaf tilbúinn að hlaupa til, leggja sig í loftköst eða færa sig til – allt til að missa ekki af rétta augnablikinu. Slík vinnusemi, elja og gleði í starfi eru ómetanleg fyrir félag eins og okkar.
Tíminn er því kominn til að Þróttur þakki Magga með formlegum hætti. Fyrir dugnað, vinnusemi og jákvæðni – þvert á flokka, greinar og kyn – er Maggi afar verðugur handhafi viðurkenningarinnar Þróttari ársins.
Heiðursviðurkenningar:
Slfurmerki:
Brynhildur Pétursdóttir
Hún hefur átt stóran þátt í skipulagningu ReyCup á síðasta áratug og lagt ríkan þátt í að byggja mótið upp í þá alþjóðlegu fyrirmynd sem það er í dag.
Vinna hennar hefur, meðal annars, gert félaginu kleift að byggja upp glæsilegt alþjóðlegt knattspyrnumót sem er ein mikilvægasta stoð í rekstri félagsins.
Fyrir óeigingjarnt starf, tryggð og farsæla þjónustu við Þrótt er Brynhildur afar verðugur handhafi silfurmerkis félagsins.
Hún er jafnframt móðir knattspyrnumanns Þróttar árið 2025, Brynjars Gautar, og hefur því verið virkur þátttakandi í starfsemi félagsins um árabil.

Gullmerki:

Hrafnhildur Brynjólfsdóttir
Hrafnhildur er uppalin á Hvammstanga en settist síðar að í Efstasundinu í Laugardalnum og myndaði þar með sterka tengingu við íþróttafélagið Þrótt. Sú tenging átti eftir að hafa mótandi áhrif á blakstarf félagsins um árabil.
Árið 2009 sá Hrafnhildur auglýstar æfingar í krakkablaki hjá Þrótti og hvatti dóttur sína til að mæta og prófa. Á þeim tíma var blakstarf yngri flokka ekki starfandi innan félagsins og því má segja að hér hafi verið um að ræða upphaf að nýjum kafla. Dóttirin var strax yfirsig ánægð, þrátt fyrir að vera eini iðkandinn fyrstu mánuðina en Hrafnhildur lét ekki þar við sitja. Hún hvatti vinkonur dótturinnar til þátttöku og lofaði því að skutla þeim sem vildu mæta á æfingar. Það loforð stóð hún við og í átta ár skutlaði hún þessum vinkvennahóp á allar æfingar, því verkefni lauk þegar stelpurnar fengu bílpróf. Þessi óeigingjarna vinna lagði grunn að öflugu og vaxandi yngri flokka starfi.
Hrafnhildur skipaði sér í forystusveit foreldra og tók að sér umsjón að skipulagi og utanumhaldi yngri flokka. Þegar starfsemin var sett í formlegan farveg og nefnd stofnuð var hún kjörin formaður. Undir hennar traustu forystu óx barna- og unglingastarf blakdeildarinnar til muna og einkenndist starf nefndarinnar af festu, ábyrgð og metnaði.
Margir iðkendur tóku þátt í unglingalandsliðsverkefnum á þessum tíma og studdi Hrafnhildur þau af mikilli elju, meðal annars með því að fara reglulega með liðunum erlendis á mót sem fararstjóri. Hún stóð ávallt við bakið á krökkunum í Þrótti og fylgdi þeim alla leið, óháð aðstæðum eða áskorunum.
Árið 2019 tók Hrafnhildur við sem formaður blakdeildar Þróttar. Á formannstíð hennar stýrði hún deildinni í gegnum afar krefjandi tímabil, þar á meðal Covid-faraldurinn, auk þess sem hún þurfti að takast á við erfiðar aðstæður þegar vatn flæddi yfir gólf Laugardalshallarinnar og aðstaðan varð ónothæf í tvö keppnistímabil. Í öllum þessum áskorunum sýndi hún seiglu, lausnamiðun og stuðning við iðkendur, þjálfara og allt starf deildarinnar.
Hrafnhildur smitaði fyrrnefnda dóttur sína af þessum sterka sjálfboðaliðaanda, og árið 2022 tók dóttir hennar við stjórn blakdeildarinnar. Með því gaf hún móður sinni verðskuldaða hvíld og sýndi jafnframt að komið var að henni að halda því starfi gangandi sem mamma hennar hafði byggt upp fyrir hana. Hún fékk vinkonurnar með sér í lið, þær sem Hrafnhildur hafði skutlað í gegnum árin, og saman hafa þær síðan sinnt rekstri deildarinnar. Hrafnhildi hefur að sjálfsögðu verið þeim innan handar í öll þau verkefni sem þarf aðstoð við, okkur skilst að fátt annað sé rætt á heimili þeirra mæðgna en blak og stjórnarstörf.
Með óeigingjarnri vinnu, elju og ótrúlegri tryggð við félagið hefur Hrafnhildur gefið ómetnalegan tíma og vinnu til blakstarfs Þróttar. Það er því með mikilli þökk, virðingu og stolti sem henni er veitt þessi viðurkenning.
Heiðursfélagar Þróttar

Gunnar Árnason
Gunnar Árnason er fæddur og uppalinn á Kópaskeri. Ungur að árum hélt hann til náms á Laugavatni og komst þar í snertingu við blakíþróttina. Eftir að hafa lokið stúdentsprófi við Menntaskólann að Laugavatni, hélt hann í Íþróttakennara skólann sem einnig var staðsettur að Laugavatni. Hann var í liði Ungmennafélags Biskupstungna, sem varð Íslandsmeistarar í blaki vorið 1974. Kjarninn úr því liði hélt til Reykjavíkur í von um að stofna blakdeild í bænum. Eftir að hafa gengið milli liða varð svo úr, að blakdeild Þróttar var stofnuð sumarið 1974. Gunnar var formaður blakdeildar frá 1975 til 1983. Samhliða því lék hann með Þrótti og lék yfir 280 leiki á ferlinum. Sem leikmaður varð hann oft Íslandsmeistari- og bikarmeistari í afar sigursælu liði Þróttar á 9. áratugnum. Hann hélt áfram að leika með eldri flokk félagsins til 2007. Að auki kom hann að þjálfun yngri liða, dómgæslu og margra annarra starfa í þágu blakdeildar. Gunnar var valinn í fyrsta landsliðshóp Íslands í blaki árið 1974 og lék alls 40 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Auk þess að vera virkur í starfi félagsins í blaki, þá hefur hann komið að skipulagningu golfmóta Þróttar sem og að leika með eldri flokki félagsins í knattspyrnu. Gunnar hefur verið sæmdur silfur- og gullmerki Þróttar, sem og gullmerki Blaksambandsins.
Jason Ívarsson
Jason Ívarsson ólst upp í Flóanum og gekk í Menntaskólann að Laugavatni. Þar kviknaði áhugi hans á blaki, sem var stundað þar af kappi. Jason var í liði Ungmennafélags Biskupstungna sem varð Íslandsmeistarar vorið 1974. Venja var að þeir sem höfðu útskrifast frá Menntaskólanum færu í Víking, en Jason ákvað að ganga frekar til liðs við nýstofnaða blakdeild Þróttar. Á löngum ferli lék hann 347 leiki í meistaraflokki. Hann var formaður blakdeildar Þróttar á árunum 1990-1993 en hafði komið að starfi deildarinnar frá upphafi. Hann þjálfaði um áraðir yngri flokka hjá félaginu sem og að sinna dómgæslu. Hann lék 15 A-landsiðsleiki fyrir Ísland. Hann var formaður Blaksambands Íslands frá 2005 til 2019, eða alls í 14 ár. Jason hefur hlotið silfur- og gullmerki Þróttar, gullmerki ÍSÍ og nafnbótina Heiðursformaður Blaksambandsins.
Leifur Harðarson
Leifur Harðarson er fæddur á Hólmavík, en sleit barnskónum á Hellissandi. Hann fluttu ungur að árum í Þróttarhverfið og gekk í Vogaskóla. Á lokaári sínu þar, vorið 1974 var hann í sigurliði skólans í Grunnaskólakeppni í blaki. Um haustið var blakdeild Þróttar stofnuð og hóf Leifur þar langan ferill sinn hjá félaginu. Hann lék allan sinn feril með Þrótti, að undanskildu einu ári þegar hann dvaldi í Osló og tveimur árum, þegar hann var við nám í Íþróttakennaraskólanum á Laugavatni. Varð hann þar tvívegis Íslandsmeistari í blaki með Ungmennafélagi Laugvetninga. Hann sneri aftur í Þrótt og samhliða því að leika með liðinu, þjálfaði hann meistaraflokk í áraraðir. Hann var lykilmaður í afar sigursæli liði Þróttar á 9. áratugnum og þjálfaði annað sigursælt lið Þróttar á 10. áratugnum. Hann lék alls 556 leiki fyrir Þrótt. Leifur lék alls 89 A-landsliðsleiki fyrir Íslandshönd og var þrívegis kjörinn blakmaður ársins. Auk þess að spila og þjálfa dæmdi hann blakleiki í marga áratugi. Hann var fyrsti A-dómari Íslands í blaki og dæmdi um 100 leiki á alþjóðavísu. Leifur hefur verið sæmdur silfur- og gullmerki Þróttar, sem og gullmerki Blaksambandsins.