Vilhjálmur Kaldal Sigurðsson hjá Þrótti næstu þrjú árin

Vilhjálmur Kaldal Sigurðsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við Þrótt og verður hjá félaginu út tímabilið 2027. Vilhjálmur sem er fæddur 1998, er alinn upp í Þrótti og þótti lengi vel einn efnilegasti leikmaður félagsins en leitaði síðan á önnur mið og hefur undanfarin ár stundað nám í Bandaríkjunum samfara því að leika með KV á sumrin. Í ár urðu leikirnir með Þrótti 15 og mörkin 3.

Kristján Kristjánsson formaður Knattspyrnudeildar Þróttar segir.  „Þetta eru mjög góðar fréttir fyrir okkur Þróttara. Villi lék frábærlega með Þrótti á þessu tímabili og mun án nokkurs vafa halda áfram að skemmta okkur eins og honum einum er lagið. Þessi samningur við hann staðfestir enn og aftur stefnu stjórnar knd. Þróttar um að byggja sem mest á uppöldum leikmönnum og mynda með þeim sterka liðsheild til framtíðar.“