Áramótaávarp 2024: Óásættanlegar árásir Reykjavíkurborgar á Þróttarasamfélagið

Kæru Þróttarar,
Árið 2024 er nú senn á enda, og horfum við fram á nýtt ár með gleði og bjartsýni. Árið hefur verið viðburðaríkt, en í byrjun árs kynnti aðalstjórn Þróttar nýja stefnu félagsins sem mun leiða starfsemina inn í framtíðina. Stefnuþríhyrningur Þróttar, sem inniheldur gildin Virðing – Árangur – Gleði, var settur í forgrunn. Í þessari stefnu er skýr framtíðarsýn, hlutverk og lykilmarkmið félagsins til næstu ára.
Lykilmarkmið félagsins eru þau verkefni sem sérstök áhersla er lögð á, ári hverju. Á þessu ári lögðum við áherslu á eftirtalin fimm atriði:

  1. Eflingu innviða félagsins; þær breytingar voru gerðar á skrifstofu félagsins að María Edwardsdóttir tók við nýrri stöðu fjármálastjóra og Jón Hafsteinn Jóhannsson kom nýr inn til starfa hjá félaginu sem framkvæmdastjóri.
  2. Innleiðingu á stefnu félagsins og verkefna því tengdu;
    • Aðalstjórn kynnti til sögunnar nýtt skipurit og nýja stefnu félagsins til ársins 2027. Þá voru einnig kynnt til sögunnar sem partur af stefnunni tíu leiðarljós Þróttar sem er hornstein félagsins.
    • Á haustmánuðum kynnti barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar Foreldravísi Þróttar, sem er lifandi handbók til þess að nýir fótboltaforeldrar í Þrótti geti lesið sér til um það helsta sem þeir þurfa að vita um foreldrastarfið og fótboltann.
  3. Ímynd félagsins, fjölgun styrktaraðila & efling vöruframboðs; Tekinn var í notkun endurbættur AVIS völlur sem sannarlega er prýði af. Allir heimaleikir meistaraflokka knattspyrnudeildarinnar voru spilaðir á vellinum. Einnig hýstum við leiki KR og Vestra í upphafi sumars og formlegri dagskrá vallarins þetta árið lauk svo á sex landsleikjum í byrjun nóvember þar sem allur riðill Íslands í undankeppni Evrópumóts 2025 hjá U17 karla var spilaður.
    • Mikil og metnaðarfull vinna var unnin sem sneri að breytingu á merki félagsins sem var á endanum lögð fyrir aðalfund félagsins. Tillagan fékk samþykki meirihluta atkvæða en ekki af 2/3 hlutum atkvæðisbærra fundarmanna og öðlast breytingin því ekki gildi. Hugmyndin að baki breytingartillögunni var að nútímavæða merki félagsins með framtíðina að leiðarljósi.
    • Á árinu voru gerðir félagið nýja samstarfssamninga við AVIS, Hagkaup, Ölgerðina og Luxor.
    • Í fyrsta skipti í ár var stóra vor knattspyrnumót félagsins haldið undir merkjum ReyCup og munu því mótin geta samnýtt ýmsan búnað og merkingar til hagræðingar og til auknar vörumerkja vitundar mótanna.
    • Félagið kynnti til sögunnar LIFI vörulínuna. Í ár fóru í sölu treflar, derhúfur og röndóttar LIFI treyjur. Merkið var unnið af Tobbu og Sæþóri í Farva.
    • Ráðist var í umfangsmiklar hönnun og varalega merkingar á svæðum félagsins. Merkingarnar voru hannaðar með því að markmiði að geta sinnt upplýsinga skyldu sinni hverju sinni sem og að uppfylla þarfir ReyCup móta félagsins.
  4. Skipulagning sjálfboðaliðastarfs; Kynnt var til sögunnar Köttarasveitin, þar sem foreldrar iðkenda félagsins geta sinnt störfum fyrir félagið og fengið á móti styrk upp í æfingagjöld iðkenda sinna. Allt utanumhald Köttarasveitarinnar fer í gegnum Abler. Greiddar vaktir á þessu ári voru í tengslum við ReyCup og vinnu við leiki á Laugardalsvelli.
  5. Efling greina sem hafa átt undir höggi að sækja innan félagsins; Það var gleðiefni þegar í ljós kom að Þróttur skráði til leiks á nýjan leik meistaraflokk karla í blaki eftir margra ára hlé. Þróttur teflir því til leiks í ár bæði meistaraflokki karla og kvenna í efstu deild í Íslandsmóti.

Við fögnuðum því á þessu ári að það eru 75 ár eru liðin frá því að þeir Halldór Sigurðsson og Eyjólfur Jónsson, ásamt 35 öðrum kröftugum einstaklingum stofnuðu Knattspyrnufélagið Þrótt. Slík tímamót minna okkur á hvernig félagið hefur verið ómissandi hluti af samfélaginu okkar frá stofnun. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að afmælisgjöf Reykjavíkurborgar til hins mikla og göfuga sjálfboðaliðastarfs Þróttar voru einhliða hótanir um upptöku samningsbundins svæðis félagsins, Þríhyrnings. Það er með ólíkindum borgarfulltrúar skulu láta hafa eftir sér í opinberri umræðu að byggja eigi unglingaskóla á svæðinu án samtals né samráðs við félagið. Þessar yfirlýsingar stjórnmálamanna lýsa í besta falli afglöp í starfi og óábyrga stjórnsýslu. Koma þessar yfirlýsingar í kjölsogi af áratuga aðstöðuleysi félagsins og algjörlega í berhöggi við þá framtíðarsýn borgarinnar að Þróttar eigi að þjónusta Voga- og Höfðabyggðina og þar með tvöfalda þjónustusvæði félagsins að stærð og fjölda iðkenda. Það hefur komið mér verulega á óvart að enginn stjórnmálamaður í meirihluta borgarinnar hefur óskað eftir því að fá upplýsingar frá aðalstjórn félagsins né boðist til að aðstoða félagið til að koma sjónarmiðum þess á framfæri innan borgarkerfisins. Þróttur sem samfélag þarf að gera skýra kröfu til stjórnmálamanna borgarinnar um að borgin mun hætta þessum árásum á félagið og leyfa því að vaxa og dafna líkt og það hefur nú gert á síðustu 75 árum.

Af þessu tilefni sá aðalstjórn félagsins sig knúna til að gefa frá sér yfirlýsingu í maí mánuði vegna fréttaflutnings um fyrirhugaðan uppbyggingu á unglingaskóla í Laugardal. Í ljósi framangreinds bað aðalstjórn Þróttar laganefnd félagsins að fara yfir samkomulag félagsins við borgina. Niðurstaða laganefndar er skýr, að tillaga að staðsetningu unglingaskóla milli gervigrasvallar og skautahallarinnar byggir á þeirri röngu forsendu að umrætt svæði, þ.e. Þríhyrningurinn, sé við hlið íþróttasvæðis Þróttar en ekki á íþróttasvæði félagsins. Með samningi Þróttar og Reykjavíkurborgar frá 12. desember 1996, um flutning félagsins úr Sæviðarsundi yfir í Laugardal, lét Reykjavíkurborg Þrótti í té afnota af tilgreindum svæðum, þar á meðal svæðinu milli gervigrasvallar og Skautahallar, þ.e. Þríhyrningi. Samkvæmt samningnum skal Þróttur hafa afnot af þeim svæðum sem um ræðir svo lengi sem félagið starfar í Laugardal. Ekkert í samningi aðila heimilar Reykjavíkurborg einhliða að taka til sín svæði sem látin voru Þrótti í té. Þríhyrningurinn er því og verður hluti af íþróttasvæði Þróttar. Með yfirlýsingunni vildi aðalstjórn Þróttar koma því á framfæri að ekkert samráð var haft við félagið um umrædd áform borgarinnar og komu þau félaginu í opna skjöldu. Það kemur ekki til greina af hálfu félagsins að gefa umrætt íþróttasvæði eftir enda gegnir það veigamiklu hlutverki í starfsemi þess. Þarna fara m.a. fram stórir viðburðir á borð við ReyCup og önnur knattspyrnumót sem gerir Þrótti kleift að halda rekstri sínum gangandi. Þróttur mun því ekki að óbreyttu gefa íþróttasvæði sitt eftir undir skólalóð.

Í upphafi sumars barst svo loks skýrsla ráðgjafafyrirtækisins Intellecta sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg, um uppbyggingu á íþróttaaðstöðu innanhúss á svæði Þróttar og Ármanns sem kynnt var borgarstjóra í júlí 2023. Skýrslan var því kynnt Þrótti í fyrsta sinn tæpu ári síðar. Skýrsla Intellecta sem kynnt var félagsmönnum sýndi svo ekki verði um villst að aðstöðumál félagsins fyrir innanhússíþróttagreinar í Laugardal er í lama sessi og hefur verið í lengri tíma. Það verður ekki fyrr en með tilkomu Þjóðarhallar og íþróttahúsanna í Voga- og Höfðabyggð, að hægt verði að uppfylla þarfir félagsins. Það er því augljóst að aðstöðuleysi félagsins fyrir innanhússíþróttagreinar mun vara áfram til næstu ára og verður að teljast ólíklegt að borgin muni leysa þann bráðavanda sem skapast hefur í hverfinu hjá bæði íþróttafélögunum og skólum, sem er mikið áhyggjuefni. Í þessu samhengi er það því sérstaklega mikilvægt að við stöndum vörð um réttindi félagsins um aðstöðu í Laugardalnum til að tryggja bjarta framtíð Þróttar.


Það hefur verið gleðilegt að fylgjast með þeirri öflugu uppbyggingu sem hefur verið hjá knattspyrnu- og blakdeild félagsins á þessu ári. Knattspyrnudeild Þróttar hefur sjaldan, ef nokkurn tíma, verið stærri og öflugri en hún er í dag. Það er okkur öllum til mikils sóma að sjá hversu vel gengur í deildinni, þar sem bæði unglingastarfið og afreksstarfið blómstra.
Unglingastarfið hefur verið í miklum vexti undanfarin ár. Fjöldi iðkenda eykst jafnt og þétt, og með þeim fylgir aukinn metnaður, sem speglast í árangri okkar á öllum sviðum. Við erum afar stolt af því að Þróttur hefur átt lið í efstu deild knattspyrnu kvenna samfleytt í fimm ár – árangur sem hefur aldrei áður náðst í sögu félagsins.

Landsliðsmönnum í knattspyrnu, bæði drengjum og stúlkum, fjölgar ár frá ári, sem sýnir hversu vel starfið okkar er að skila sér. Við leggjum ríka áherslu á að tengja saman afreksstarfið í meistaraflokkum og unglingastarfið. Með því tryggjum við að okkar bestu unglingar eigi greiða leið upp í meistaraflokka þegar þeir hafa burði til þess, og um leið fast tengjum við félagið við nærumhverfið okkar. Leikmenn meistaraflokka hafa verið sýnilegri en nokkru sinni fyrr í starfi félagsins. Margir þeirra taka virkan þátt í þjálfun yngri flokka, sem styrkir tengslin milli flokkanna og eykur sýnileika þeirra innan félagsins. Þetta stuðlar að sterkari einingu og samheldni innan félagsins.
Mikil vinna hefur verið lögð í að skapa stöðugleika í rekstri knattspyrnudeildarinnar undanfarin ár, og það er ánægjulegt að sjá þann árangur bera ávöxt. Endurskipulagning á rekstrinum hefur verið lykilatriði í því að tryggja sjálfbærni og styrk deildarinnar. Að auki höfum við unnið þrekvirki við að bæta aðstöðu okkar, ekki síst með tilkomu Þróttheima, sem hafa stórbætt umgjörð starfseminnar.

Einn af hornsteinum Þróttar hefur alltaf verið sterkt grasrótarstarf, sem er bæði sjálfsprottið og stutt af félaginu. Það gleður mig að sjá hvernig þetta starf hefur tekið á sig nýja og öfluga mynd, sérstaklega á sviði dómarasamfélagsins. Á undanförnu ári hefur dómarasamfélagið innan Þróttar vaxið með ógnarhraða. Það er einstaklega ánægjulegt að sjá hvernig fullorðið fólk hefur tekið þetta mikilvæga hlutverk að sér, með fagmennsku og metnaði, sem endurspeglar gildi félagsins. Það að allir leikir Þróttar séu dæmdir af fullorðnu fólki, sem sýnir virðingu og ábyrgð, styrkir ásýnd félagsins og skapar traust innan knattspyrnuhreyfingarinnar.


Þetta er ekki aðeins mikilvægt fyrir félagið sjálft heldur einnig fyrir samfélagið í heild þar sem allir geta fundið verkefni við sitt hæfi til að vera þátttakandi í leik og starfi. Með sterku dómarasamfélagi sendir Þróttur skýr skilaboð um fagmennsku og sem styður við öll svið knattspyrnunnar. Þróttur mun áfram styðja við þessa sjálfsprottnu grasrót sem sýnir svo glöggt að samheldni og frumkvæði eru okkar helstu styrkleikar. Þetta er hluti af því sem gerir Þrótt að fyrirmyndarfélagi og samfélagi sem við öll getum verið stolt af. Kvennaþrek er annar grasrótarhópur, sem hefur sannað sig sem ómissandi hluti af félagslífi og heilsueflingu í Þrótti. Þessi hópur, sem hittist þrisvar í viku, hefur verið uppseldur frá upphafi – sterkur vitnisburður um það hversu mikil áhugi er á slíkri hreyfingu og félagsskap. Kvennaþrekið er glæsilegt dæmi um hvernig grasrótarstarf getur blómstrað með stuðningi félagsins og skilað mikilvægum ávinningi fyrir Þróttarasamfélagið.

Það gleður mig að sjá á 50 afmælisári blakdeildar Þróttar, hvernig deildin hefur blómstrað á þessu ári, bæði í meistaraflokkum og í yngri flokkastarfi.

Úrvalsdeildarlið kvenna hefur staðið sig með miklum sóma, þrátt fyrir erfiðar áskoranir á síðasta tímabili. Helmingur liðsins og þjálfarinn hættu um síðustu áramót, en með ráðningu Ingólfs Dans Guðjónssonar og samstöðu rótgróinna Þróttara tókst að ljúka tímabilinu með reisn. Á þessu tímabili hefur kvennaliðið náð góðum árangri og er nú í 5. sæti Unbrokendeildarinnar, með Ingólf sem áframhaldandi þjálfara.
Í fyrsta sinn í langan tíma tefldi Þróttur fram úrvalsdeildarliði karla á þessu tímabili. Með Mateusz Rusinski sem spilandi þjálfara hefur liðið staðið sig frábærlega og er nú í toppslagnum, sitjandi í 3. sæti deildarinnar og í harðri baráttu við toppliðin tvö. Þetta er glæsilegur árangur sem speglar þann kraft og metnað sem býr í blakdeildinni.
Yngri flokkastarfið heldur áfram að vaxa og dafna, með iðkendur á öllum aldri og hefur Lesly Maryori Pina Vargas unnið ómetanlegt starf við að byggja upp deildina í gegnum árin. Neðri deildirnar, undir stjórn Eldeyjar, eru einnig í miklum blóma, með fyrirmyndarhópa sem keppa í 2. og 3. deild.
Það er líka ánægjulegt að sjá samfélagslega ábyrgð blakdeildarinnar, sem býður fólki frá Úkraínu að æfa frítt einu sinni í viku. Þetta er dæmi um gildi Þróttar í verki – samfélag með gleði að leiðarljósi og virðing fyrir öllum.
Blakdeildin hefur sýnt ótrúlegan kraft og seiglu á þessu ári, og eiga þjálfarar, iðkendur og foreldrar sem hafa lagt sitt af mörkum, hrós skilið til að gera þetta að veruleika. Það er með stolti sem við horfum til framtíðar, þar sem blakdeild Þróttar verður öflugri en nokkru sinni áður.
En í nóvember bárust sorgafréttir, Hekla Hrafnsdóttir lést eftir hugrakka baráttu við krabbamein. Hekla var alla tíð viðloðandi blakdeildinni og lék hún öll sín yngriflokka ár í Þrótti og á ungum aldri var hún farin að æfa og spila með meistaraflokki. Hekla tók þátt í unglingalandsliðverkefnum sem fulltrúi félagsins. Síðastu ár spilaði hún í neðri deildum ásamt systrum sínum og góðum vinkonum sem henni þótti lang skemmtilegast. Við erum ævinlega þakklát fyrir að fá að njóta samveru Heklu í öll þessi ár og verður hennar sárt saknað og sendum við hughlýja kveðju til fjölskyldu og vina Heklu Hrafnsdóttur.

Á þessum tímamótum vil ég þakka iðkendum, sjálfboðaliðum, þjálfurum, foreldrum og stuðningsmönnum fyrir ómetanlegt framlag ykkar á þessu ári. Þið eruð hjartað í félaginu. Sérstakar þakkir færum við einnig styrktaraðilum og velunnurum félagsins, sem hafa stutt fjárhagslega við Þrótt á árinu.

Á komandi ári munum við halda áfram að byggja á þeirri stefnu og styrkleikum sem hafa gert Þrótt að því samfélagi sem félagið er í dag.

Knattspyrnufélagið Þróttur óskar ykkur öllum gleðilegs nýs árs, með von um velfarnað, gleði og góða heilsu á árinu sem fram undan er.

Með áramóta kveðjum,
Bjarnólfur Lárusson
Formaður aðalstjórnar Þróttar