Fyrirhuguð uppbygging unglingaskóla í Laugardal

Aðalstjórn Þróttar sendi í vikunni bréf til allra fulltrúa borgarráðs Reykjavíkurborgar. Í bréfinu lýsir félagið yfir ósætti við þau vinnubrögð sem hafa einkennt ákvarðanatöku og skorts á samráði við félagið í tengslum við uppbygginu á fyrirhuguðum unglingaskóla í Laugardal. Þróttur hefur óskað eftir því formlega að málið verði tekið til umfjöllunar í borgarráði og að borgin komi málinu í faglegra ferli og bæti vinnubrögð í þessu máli.

Hér að neðan má sjá bréfið í heild sinni.

Efni: Fyrirhuguð uppbygging unglingaskóla í Laugardal

Þann 9. desember sl. sendi skóla- og frístundarsvið Reykjavíkurborgar tölvupóst á foreldra í Laugardalnum til að upplýsa þá um framtíð skóla- og frístundarmála í hverfinu. Í póstinum kom fram að sama dag hefði skóla- og frístundaráð samþykkt að halda áfram vinnu sem snýr að þróun og byggingu safnskóla á unglingastigi (svokölluð sviðsmynd 4). Kom þar einnig fram að byggður verður nýr safnskóli fyrir unglinga í Laugardal og er áætlað að hann muni rísa á svokölluðum Þríhyrningi milli Skautahallarinnar og félagsheimilis Þróttar og Ármanns. Með erindi þessu til borgarráðs vill Þróttur lýsa yfir undrun sinni á vinnubrögðum borgarinnar og lýsa yfir óánægju með samráðsleysi við umrædda ákvarðanatöku. Þá er einnig farið fram á að borgin komi málinu í faglegra ferli gagnvart félaginu og verður forsaga þessa máls hér reifuð því til stuðnings.  

Í nóvember 2023 fékk Reykjavíkurborg afhenta skýrslu starfshóps sem bar heitið „Skóla- og frístundarstarf í Laugardal-Undirbúningur framkvæmda“. Í þeirri skýrslu komu m.a. fram hugmyndir um að byggja nýjan unglingaskóla á svæði sem Þróttur hefur til umráða og ber heitið Þríhyrningurinn. Því skal haldið til haga að skýrslan var ekki borin undir Þrótt til umsagar og ekkert samráð var haft við félagið við vinnslu hennar. Þá var ekkert samráð haft við félagið af hálfu borgarinnar á þessu stigi. Hafði félagið í raun enga vitneskju um að þessar hugmyndir væru í vinnslu hjá borginni fyrr en 14. maí 2024 þegar umrædd skýrsla var birt opinberlega og fjallað um þessi áform í fjölmiðlum.

Innihald skýrslunnar og fyrirætlanir borgarinnar voru ekki kynntar íþróttafélögum í Laugardal fyrr en á fundi 24. maí. Á þeim fundi voru Þrótti í fyrsta sinn kynntar hugmyndir um að til stæði að byggja skóla á landssvæði sem Þróttur hefur ótímabundin yfirráð yfir skv. samningi við borgina. Þrótti var, við það tilefni, veittur sjö dagar frestur þ.e. til 31. maí 2024 til að bregðast við skýrslunni, sem þó hafði legið hjá Reykjavíkurborg í sex mánuði þar á undan. Þróttur gerði í kjölfarið verulegar athugasemdir við þann skamma frest sem umsagnaraðilum var veittur, enda varðaði málið mikla hagsmuni fyrir félagið, og var frestur þá framlengdur til 10. júní 2024.

Þann 5. júní 2024 funduðu fulltrúar borgarinnar sérstaklega með fyrirsvarsmönnum félagsins í félagsheimili Þróttar í Laugardal. Þann fund sátu f.h. borgarinnar sátu ráðgjafi borgarinnar auk fulltrúar frá umhverfis- og skipulagssviði, og frá menningar- og íþróttasviði borgarinnar. Fundurinn var óljós og uppbygging á Þríhyrningnum þar aðeins nefnd sem einn möguleiki af nokkrum sem borgin væri með til skoðunar.

Þróttur skilaði athugasemdum sínum til borgarinnar 10. júní 2024 og eru þær meðfylgjandi í viðhengi. Mikilvægasti þáttur þeirra athugasemda varðar þá staðreynd að Þróttur hefur ótímabundin endurgjaldlaus afnot af því svæði sem nefnt er Þríhyrningurinn á grundvelli samnings við Reykjavíkurborg frá 1996. Sá afnotaréttur Þróttar er án kvaða og skal haldast svo lengi sem Þróttur hefur starfsemi í Laugardal. Eingöngu er hægt að takmarka þann rétt með gagnkvæmu samkomulagi beggja aðila og þá eingöngu á þeim forsendum að það komi í það minnsta jafn góð aðstaða í staðinn. Samningurinn er ótímabundinn og Þróttur hefur ekki samþykkt neinar breytingar á honum og honum verður ekki breytt einhliða.

Eftir að Þróttur skilaði athugasemdum sínum hefur verið haldinn einn fundur, þann 20. september 2024, með ráðgjafa Reykjavíkurborgar. Á þeim fundi ítrekuðu fyrirsvarsmenn Þróttar fyrri sjónarmið sín, sbr. athugasemdir dags. 10. júní, og lögðu á það áherslu að félagið myndi ekki fallast á fyrirætlanir Reykjavíkurborgar að óbreyttu. Það kom því fyrirsvarsmönnum félagsins verulega á óvart þegar tilkynnt var um að samþykkt hafi verið að byggja skóla á landssvæði sem Þróttur hefur, eins og áður hefur komið fram, skýran og óuppsegjanlegan samningsbundinn afnotarétt af. Einkum í ljósi þess að félagið hafði áður útlistað afstöðu sína á afar skýran hátt. Samþykkt um að reisa mannvirki á lóð sem Þróttur hefur samningsbundin afnot af er markleysa. Þróttur telur stjórnsýslu borgarinnar í málinu ámælisverða og óskar eftir að borgarráð taki málið til umfjöllunar.

Þróttur ítrekar afstöðu sína þ.e. að það landssvæði sem um ræðir verði ekki tekið af félaginu einhliða.

Virðingarfyllst,
f.h. Knattspyrnufélagsins Þróttar

Bjarnólfur Lárusson, fomaður