Ræða formanns Þróttar á aðalfundi félagsins – Hjartað í Reykjavík slær ákveðinn takt

Aðalfundur Knattspyrnufélagsins Þróttar var haldinn 29. maí s.l. í veislusal félagsins. Við setningu hélt Bjarnólfur Lárussin, formaður, setningarræðu um störf stjórnar síðastliðið starfsár. Í ræðunni kom hann meðal annars inná nýtt LIFI kort Þróttar sem er rafrænt samfélagskort Þróttar fyrir alla sem vilja vera hluti af sterku samfélagi félagsins.
Ræðuna má lesa í heild sinni hér.

Kæru Þróttar,

Hjartsláttur Þróttar er taktfastur og sterkur um þessar mundir. Stöðugleiki undanfarinna ára í starfsemi félagsins, samheldni félagsmanna og vaxandi þátttaka í félagsstarfinu er farið að skila sér í auknum árangri innan sem utan vallar, svo eftir er tekið. Þróttur er fyrirmyndar félag sem önnur íþróttafélög líta nú til.

Á árinu 2024 lögðum við formlega af stað í metnaðarfulla vegferð með nýrri stefnu og skýrri framtíðarsýn, vegferð þar sem Þróttarar lifa gildin Virðing – Árangur – Gleði sem eru hornsteinar félagsins.

Í stefnunni  er framtíðarsýn, hlutverk og lykilmarkmið félagsins skýr. Þá voru einnig kynnt til sögunnar sem partur af stefnunni tíu leiðarljós Þróttar.

Lykilmarkmið ársins 2024 voru metnaðarfull og er gaman að segja frá því hér, að okkur hefur tekist mjög vel til, en lykilmarkmið ársins voru:  

  1. Efling innviða félagsins.

Breyting var gerð á skrifstofu félagsins. María Edwards tók við starfi fjármálastjóra og Jón Hafsteinn kom nýr inn sem framkvæmdastjóri. Hallur Halls er áfram íþróttastjóri Þróttar.

  • Innleiðing stefnu félagsins og verkefna.

Á haustmánuðum kynnti barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar Foreldravísi Þróttar, sem er lifandi handbók sem fótboltaforeldrar geti lesið sér til um það helsta sem þeir þurfa að vita um foreldrastarfið og fótboltann. Þessa góðu handbók er svo auðvelt að innleiða inn í aðrar deildir félagsins.

  • Ímynd félagsins, styrktaraðilar og vöruframboð.

Tekinn var í notkun endurbættur AVIS völlur sem sannarlega er prýði af og undir forystu Kristófers Ólafssonar var verkið fullkomnað með nýja pallinum sem smíðaður var á þessu ári. Allir heimaleikir meistaraflokka knattspyrnudeildarinnar voru spilaðir á vellinum. Einnig hýstum við leiki annarra liða og formlegri dagskrá vallarins lauk svo á sex landsleikjum í byrjun nóvember þar sem allur riðill Íslands í undankeppni EM 2025 U17 karla var spilaður.

Nýir samstarfssamningar voru gerðir við AVIS, Hagkaup, Ölgerðina og Luxor, eru við þakklát þessum glæsilegu fyrirtækjum fyrir samstarfið.

Í fyrsta skipti var stóra Vormót Þróttar haldið undir merkjum ReyCup og mótin samnýta nú búnað og merkingar. ReyCup er að víkka út yfir á alla aldurshópa í knattspyrnu og mikil sóknarfæri felast í vextinum fyrir félagið. Þróttur mun skipuleggja þrjú stórmót árlega á komandi árum, þar á meðal ReyCup Senior sem verður alþjóðlegt mót og  færir saman Oldboys-bolta, göngubolta og fótboltahreysti.

Félagið kynnti LIFI vörulínuna: treflar, derhúfur og röndóttar treyjur, hannaðar af Tobbu og Sæþóri í Farva. Einnig var ráðist í umfangsmikla hönnun og varalega merkingar á svæðum félagsins, með það að markmiði að geta sinnt upplýsingaskyldu þess hverju sinni sem og að uppfylla þarfir ReyCup móta félagsins. 

  • Skipulag sjálfboðaliðastarfs.

Kynnt var Köttarasveitin sem veitir foreldrum tækifæri til að vinna fyrir afslátt af æfingagjöldum, í gegnum Abler. Vaktir voru unnar í ReyCup og á landsleikjum á Laugardalsvelli. Frábær viðbrögð fengust og mikil ánægja félagsmanna var með fyrirkomulagið sem létt verulega undir sjálfboðaliðastarfi félagsins

  • Efling greina sem hafa átt undir höggi að sækja.

Það var gleðiefni þegar í ljós kom að Þróttur skráði til leiks á nýjan leik meistaraflokk karla í blaki eftir margra ára hlé. Þróttur tefldi því til leiks í ár bæði meistaraflokki karla og kvenna í efstu deild á Íslandsmóti. Stórkostlegur árangur karlaliðs félagsins sem spilaði til úrslita í bikarkeppni BLÍ og tryggði sér annað sætið á Íslandsmótinu, sem gefur félaginu fullt tilefni til bjartsýni um framtíð blakdeildarinnar.

Lykilmarkmið Þróttar fyrir árið 2025  endurspegla skýra sýn á áframhaldandi vöxt og styrkingu félagsins. Áhersla verður lögð á að efla menningu og mannauð innan félagsins, byggja upp trausta og vandaða innviði, fjölga fjárhagslegum samstarfsaðilum og styrkja ímynd félagsins og sýnileika þess í samfélaginu. Þá verður áfram unnið markvisst að skipulagningu sjálfboðaliðastarfs, auk þess sem sérstök áhersla verður lögð á að efla þær greinar innan félagsins sem hafa átt undir höggi að sækja á undanförnum árum.

Nú þegar hafa náðst frábær árangur í lykilverkefnum þessa árs sem dæmi vil ég nefna útgáfuna á LIFI kort Þróttar sem er rafrænt samfélagskort Þróttar fyrir alla sem vilja vera hluti af sterku samfélagi félagsins. LIFI kortið er mikilvæg fjáröflun sem um leið sameinar sterka tengingu  félagsins við stuðningsmenn og býr til verðmæti fyrir þá. LIFI kortið er í raun frí kort  fyrir stuðningsmenn þar sem afslættir fyrirtækja og viðburða félagsins eru slíkir að það vegur upp í grunnkostnað kortsins.

Kortið veitir korthöfum:

  • Forgang og afslætti á viðburðum félagsins
  • Afslætti hjá valinkunnum styrktaraðilum
  • Veitir félagsmönnum stolt og er góð leið til að styrkja félagið á skemmtilegan hátt

En LIFI kortið er meira en bara fríðindi, það er verkfæri sem heldur utan um stuðningsmenn félagsins og eykur virði þess vegna tengsla félagsins við stuðningmenn í gegnum, netföng, símanúmer og samskiptaleiðir en um leið styrkir tengslin milli Þróttar og þeirra sem standa að baki félaginu.

Annað verkefni sem ég vil sérstaklega nefna erFjáröflunarráð knattspyrnudeildar Þróttar, undir handleiðslu Helga Sævarssonar. Fjáröflunarráðið fór í skemmtilegt átaksverkefni með það að markmiði um að afla knattspyrnudeildar nýrra samstarfssamning  að fjárhæð15 m.kr. og  náðist markmið ráðsins á örfáum mánuðum.  Fjármagnið verður notað til að bæta umgjörð meistaraflokka félagsins og skýtur mikilvægri stoð undir rekstur liðanna.

Við stöndum nú á einum þeim mikilvægustu tímum í sögu félagsins. Með stórbættri aðstöðu til knattspyrnuiðkunar þá er í vændum innleiðing á nýju hverfi sem tvöfaldar fjölda iðkenda og uppbygging Þjóðarhallar sem á eftir að stórbæta aðstöðu inniíþrótta í Laugardal.

Stóru framtíðar verkefni félagsins sem nýlega voru rædd við borgarstjóra Reykjavíkurborgar, eru uppbygging aðstöðu og styðja við rekstur félagsins til að taka við Voga- og Ártúnshöfða, klára uppbyggingu við Þróttheima og gerð rekstrarsamnings um Þjóðarhöllina.

Menningar- íþrótta- og tómstundaráð samþykkti samhljóða í janúar 2022 að íþróttafélögin Þróttur og Ármann muni sameiginlega þjónusta hverfin Vogabyggð og Ártúnshöfða. Ekkert samtal hefur hins vegnar átt sér stað við félögin né samningar gerðir um þjónustu, uppbyggingu eða rekstur íþróttafélaga í hverfunum frá því að borgin tók ákvörðun sína fyrir þremur árum síðan. Nauðsynlegt er að íþróttafélögin verði sýnileg strax í upphafi í hverfunum því annars er hætta á að verktakar fari að auglýsa önnur íþróttafélög við markaðssetningu íbúða og börn byrja að fara í skóla í öðrum hverfum sem eykur flækjustigið við uppbyggingu hverfanna til framtíðar.

Uppbyggingu við Þróttheima er enn ólokið og hefur Knattspyrnufélagið Þróttur óskað eftir því við Reykjavíkurborg að fylgt verði eftir samkomulagi milli aðila um byggingu 310 fermetra aðstöðuhúss á svæðinu, í samræmi við gildandi deiliskipulag. Ástand aðstöðunnar er verulega ábótavant, sérstaklega þegar kemur að búningsherbergjum, hjóla-, bolta- og áhaldageymslum, salernisaðstöðu og nauðsynlegri sjúkraaðstöðu.

Rekstrarsamningur íþróttarfélaganna í Laugardag um nýtingu Laugardalshallar hefur verið afar óhagstæður félögunum í áraraðir þegar kemur að aðstöðu inniíþrótta. Aðstaða félaganna til rekstrar og æfinga í Laugardal hefur verið verulega áfátt mörg undanfarin ár og því hafa félögin Þróttur og Ármann, ekki náð að byggja upp þær greinar sem þau vildu. Ekki hefur bætt úr skák að skipulegar æfingar í Laugardalshöll hafa ekki verið reglulegar vegna viðburða sem haldnir eru í höllinni, en það raskar þjónustu sem félögin geta veitt. Því er mikilvægt að íþróttafélögin komi strax að borðinu um útfærslu á rekstrarsamningi Þjóðarhallar við félögin, þegar kemur að æfingar- og opnunartímum, búningsherbergjum og geymslum, auglýsingaplássi og viðburðahaldi í Þjóðarhöllinni.  Þetta er mikilvægt til að mistök fortíðar endurtaki sig ekki.

Kæru Þróttarar, við stöndum á mikilvægum tímamótum. Eftir ár af stöðugri uppbyggingu, samstöðu og elju þá blasa tækifærin nú við okkur. Við höfum lagt grunninn, við höfum mótað stefnu, við höfum sannað getu okkar. Nú er tíminn til að nýta þau tækifæri sem framundan eru.

Við höldum áfram að slá taktinn saman – því hjartað í Reykjavík heldur áfram að slá með Þrótti.

#LIFI kveðja,

Bjarnólfur Lárusson Formaður aðalstjórnar Þróttar