Um síðastliðna helgi fór fram Orkumótið í Vestmannaeyjum en mótið er hápunkturinn hjá eldra árinu í 6.flokki karla. Alls tóku 108 lið frá 35 félögum þátt í mótinu og ætla má að keppendur hafi verið rúmlega 1.000 og sendi Þróttur í ár 36 drengi í fjórum liðum.
Eins og flestir vita þá áttum við Þróttarar titil að verja frá því í fyrra og fór það svo að úrslitaleikurinn í ár var endurtekning á úrslitaleiknum árið 2024 þar sem Þróttur mætti HK. Eftir æsispennandi úrslitaleik, þar sem staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu, tók við magnþrungin vítaspyrnukeppni og þurfti bráðabana í henni til að knýja fram úrslit eftir 16 vítaspyrnur. Því miður var það stöngin út hjá okkar mönnum og endaði Þróttur því í 2.sæti, sannarlega frábær árangur.
Þá tapaði Þróttur 3 naumlega úrslitaleiknum um Helgafellsbikarinn, 0-1 fyrir FH 3.



Einn af hápunktum mótsins er árlegur leikur Landsliðsins gegn Pressuliðinu. Fulltrúi okkar Þróttara í landsliðinu var Kristinn Þór Sigurðsson. Í lok mótsins voru svo þeir Kristinn Þór og Jökull Ægir Gíslason (í grænni treyju), markmaður, valdir í Orkumótsliðið.
Veðrið lék við drengina á mótinu sem sýndu frábæra takta og fara heim með sól í hjarta og einstakar minningar frá frábæru móti.