Þær Álfhildur Rósa Kjartansdóttir og Sóley María Steinarsdóttir hafa báðar framlengt samninga sína við Þrótt um 3 ár og munu því leika með félaginu út árið 2028.
Óþarfi er að kynna þær stöllur og vinkonur sem leikið hafa saman með félaginu frá því 7da flokki. Þær komu báðar bráðungar inn í meistaraflokk og hafa nú, 25 ára gamlar, báðar leikið vel á þriðja hundrað leiki með félaginu.
Báðar hafa þær leikið yfir 100 leiki í efstu deild og eru leikjahæstar allra Þróttara þar. Sóley hefur að auki leikið 25 landsleiki, þar af 1 A-landsleik en Álfhildur á að baki 2 landsleiki með u23 ára liði Íslands auk þess að hafa verið fyrirliði liðsins í mörg ár.
Saga þeirra og framlag er samofin velgengni meistaraflokks kvenna síðustu árin.
Kristján Kristjánsson, formaður Knd. Þróttar segir: ,,Það er sérstakt gleðiefni að endurnýja samning við þessa máttarstólpa í meistaraflokki kvenna. Þær eiga stóran þátt í þeirri velgengni sem kvennalið Þróttar hefur notið og
gott að vita að við munum njóta krafta þeirra áfram næstu árin. Þær hafa vaxið og dafnað með félaginu og sýnt og sannað að þær eru í senn afburða knattspyrnukonur og ekki síður gegnheilir og mikilvægir Þróttarar.” #lifi