Jóhann Kristinn Gunnarsson hefur skrifað undir samning við Þrótt um að þjálfa lið félagsins í Bestu deild kvenna.
Jóhann hefur þjálfað Þór/KA mörg undanfarin ár með mjög góðum árangri og gerði liðið m.a. að Íslandsmeisturum árið 2012 en flest árin hefur hann skilað liðinu í hóp efstu liða.
Hann á að baki tæplega 160 leiki sem þjálfari í efstu deild kvenna og hefur auk þess mikla reynslu af þjálfun mfl. karla á Húsavík.
Jóhann mun hefja störf hjá Þrótti strax við lok tímabilsins og auk þess að þjálfa meistaraflokk kvenna mun hann taka þátt í afreksþjálfun yngri leikmanna félagsins.
Kristján Kristjánsson, formaður Knd. Þróttar segir: ,,Jóhann Kristinn var okkar fyrsti kostur eftir að ljóst varð að þjálfaraskipti yrðu hjá félaginu. Með ráðningu hans er ljóst að við ætlum okkur áfram að halda kvennaliði félagsins í fremstu röð og styrkja það og efla eins og við höfum unnið að undanfarin ár. Auk þess að þjálfa meistaraflokk mun Jóhann koma að afreksþjálfun hjá félaginu og vinna að því að tengja saman yngri flokka og meistaraflokka í anda Þróttar þar sem áhersla er á að byggja upp sterk lið með leikmönnum sem aldir eru upp í félaginu. Við við erum feykilega ánægð með að fá jafn reyndan og viðurkenndan þjálfara til liðs við okkur og bjóðum Jóhann velkominn í Þrótt.”
Jóhann er fullur tilhlökkunar og segir sjálfur: ,,Ég er mjög ánægður að taka við þessu starfi á þessum tímapunkti. Það er augljóslega verið að vinna frábært starf í Þrótti og kvennaboltinn í stöðugri sókn þar á bæ undanfarin ár. Frábærir þjálfarar sem hafa fært liðið í fremstu röð og mér er mikill heiður sýndur að ráða mig inn í þetta spennandi umhverfi. Gott lið, góðir leikmenn, öflugt fólk sem vinnur við félagið og frábært umhverfi. Það verður áskorun að gera allt sem í mínu valdi stendur til að taka næsta skref með þessu spennandi liði. En það verður ánægjuleg áskorun sem ég hlakka til að takast á við.”