Knattspyrnufélagið Þróttur hefur fengið ríkulegan liðsstyrk fyrir komandi tímabil. Björg Gunnlaugsdóttir hefur gengið til liðs við félagið. Björg, fædd árið 2006, hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað 112 leiki í meistaraflokki og skorað 27 mörk, og er álitin ein allra efnilegasta sóknarkona landsins. Hún hefur jafnframt spilað 7 landsleiki með yngri landsliðum Íslands og komið þar sterkt inn.
„Að ganga til liðs við Þrótt er spennandi skref fyrir mig, ég hef séð hversu öflugt starfið er hér og ég hlakka ótrúlega mikið til að spila í Laugardalnum, hitta hópinn og leggja mitt af mörkum á vellinum.“ segir Björg.
Kristján Kristjánsson form. Knd. Þróttar segir: „Við erum mjög stolt af því að fá Björgu til Þróttar. Hún hefur verið eftirsótt víða og við gleðjumst yfir því að hún skuli hafa valið Þrótt. Við teljum hana passa einstaklega vel við áherslur félagsins, uppbyggingu þess og metnað. Við höfum fylgst með henni lengi og fögnum því að hún er nú tilbúin að stíga sín næstu skref með Þrótti.“
Þróttarar bjóða Björgu hjartanlega velkomna í rauða og hvíta fjölskylduna og hlakka til að fylgjast með henni blómstra í dalnum.
Velkomin í Þrótt, Björg! ❤️🤍
#LIFI