Sigurður Egill Lárusson hefur gengið til liðs við Þrótt og mun því leika með félaginu á komandi tímabili. Sigurð er nánast óþarft að kynna fyrir íslenskum knattspyrnuáhugamönnum en hann er einn reyndasti leikmaður sinnar kynslóðar, skráðir leikir eru nú 565 og mörkin 116.
Sigurður ólst upp í Víkingi en gekk ungur til liðs við Val, þar hefur hann leikið þar óslitið frá 2014 og er leikjahæsti leikmaður Vals í efstu deild frá upphafi. Leikir í efstu deild fyrir Val og Víking eru 278 og mörkin 48. Sigurður Egill hefur jafnan leikið sem vinstri bakvörður eða kantmaður og er þekktur fyrir afburða leikskilning og sendingar. Hann er fæddur 1992, hefur þrívegis orðið Íslandsmeistari með Val og tvívegis bikarmeistari. Landsleikirnir eru orðnir 20, þar af tveir A-landsleikir.


Sigurður hefur þegar skrifað undir samning og verður löglegur með Þrótti í febrúar þegar opnað verður fyrir félagaskipti á Íslandi.
Kristján Kristjánsson, form. Knd. Þróttar segir: ,,Sigurður Egill hefur verið í fremstu röð knattspyrnumanna á Íslandi um árabil og það er mikill fengur að honum í okkar raðir. Leikmenn með reynslu sem þessa, viðhorf og metnað eru sannarlega ekki á hverju strái og við trúum því að hæfileikar hans nýtist vel í þeirri knattspyrnu sem Þróttur leggur áherslu á. Með komu Sigurðar fær Þróttur í sínar raðir leiðtoga sem við teljum að muni skila miklu til félagsins, jafnt innan sem utan vallar. Við Þróttarar bjóðum Sigurð velkominn í Laugardalinn.”