Ávarp formanns Knattspyrnufélagsins Þróttar á Hátíðarfundi félagsins á gamlársdag 2025.
Í síðasta sinn sem hlegið verður að Þrótti
Kæru Þróttarar,
Á árinu sem er að líða komu út sjónvarpsþættirnir um Brján. Brjánn er Þróttari í húð og hár nema hvað hann lifir knattspyrnudrauminn sinn helst í gegnum tölvuleikinn Football Manager. Fyrir röð tilviljana endar hann svo sem þjálfari hjá Þrótti og félagssvæðið okkar verður sögusvið þáttanna.
Þættirnir eru vel gerðir, skemmtilegir og á köflum var einfaldlega ekki annað hægt en að brosa þegar maður sá starfsemi félagsins speglast í sögunni. Þættirnir eru framleiddir af Þróttara, handritið skrifað af Þróttara og aðalhlutverkið leikið af Þróttara. Skírskotunin er því sterk. Hugmyndin er hins vegar um 15 ára gömul og lýsir á engan hátt því félagi sem Þróttur er í dag. Við höfum siglt langt frá þeirri höfn sem þessi saga byggðist á.
Í gagnrýni á þættina talaði gagnrýnandi um „lítilmagnann í Laugardal“. Hann taldi Þrótt kjörinn vettvang fyrir grín, félag stofnað 1949 sem aldrei hefur orðið Íslandsmeistari í fótbolta, hvorki í karla- né kvennaflokki. Konurnar vissulega ofarlega í efstu deild, karlarnir oftar í næstefstu. Rifjað var upp sumarið 2003, þegar liðið var efst eftir fyrri hluta en féll að lokum. Undanfarin ár hefur liðið verið kallað „project nothing“ og síðasta sumar var sagt að við hefðum koxað á lykilstundu.
Að lokum sagði gagnrýnandinn að slagorð félagsins, Lifi Þróttur, væri eins og samið fyrir lið sem ætlar sér ekki að vinna, heldur bara að tóra.
Það má alveg brosa af gamalli ímynd en tíminn stendur ekki í stað og það gerir Þróttur svo sannarlega ekki. Félagið hefur þróast, eflst og mótast af skýrri stefnu með kröftugu starfi, leitt af öflugum sjálfboðaliðum og starfsfólki. Raunveruleikinn er sá að kvennalið Þróttar er í efstu deild og bætti stigamet félagsins í sumar. Liðið er svo sannarlega eitt af stórveldum landsins í kvennaknattspyrnu og stefnir af fullum krafti á íslandsmeistaratitil á næsta ári.
Karlaliðið var einum leik frá því að fara upp í efstu deild og árangurinn fór fram úr væntingum. Meðalaldur byrjunarliðsins var um 21 ár, það kallar maður ekki að koxa, heldur árangur skýrar stefnu að byggja upp liðið af uppöldum leikmönnum og ná árangri á þeim grunni.
Barna- og unglingastarf félagsins í knattspyrnu og blaki hefur aldrei verið öflugra. Á árinu tefldum við fram 15 unglingalandsliðsmönnum í þessum tveimur íþróttunum. Deildirnar eru með þeim fjölmennustu á landinu og spannar breiðasta aldursbil allra félaga.
Afrakstur barna- og unglingastarfs félagsins varð raunverulegur á árinu þegar Björn Darri Oddgeirsson gekk til liðs við Inter Milan beint úr yngri flokkum félagsins, og Hinrik Harðarson til norska liðsins Odd eftir að hafa leikið 59 leiki og skorað 22 mörk með meistaraflokki Þróttar. Kári Kristjánsson var svo seldur til FH en hann var valinn íþróttamaður ársins 2024.
Og þar sem þættirnir um Brján fjölluðu um knattspyrnu, þá sleppti gagnrýnandinn alveg að fjalla um öflugt starf blakdeildar félagsins þar sem karlaliðið endaði í öðru sæti bæði í bikar og deild. Ekki slæmt fyrir „lítilmagnann“ í Laugardal.
Slagorð segja oft meira um félög en innantóm stefnuskjöl. Fyrir mér er Lifi Þróttur eitt hið sterkasta slagorð íslensks íþróttafélags. „Lifi“ snýst ekki um að tóra heldur um þakklæti. Þakklæti til samfélagsins, sjálfboðaliðanna, foreldra, iðkenda og allra sem leggja sitt af mörkum fyrir félagið „Lifi“ er eins konar amen Þróttara. Með því samþykkjum við samfélagið sem við höfum byggt upp saman.
Þróttur er fjárhagslega vel rekið félag, með skýran aðskilnað milli barna- og unglingastarfs annars vegar og afreksstarfs hins vegar. Rekstur meistaraflokka er hófstilltur og árangurinn, pund fyrir pund, með þeim betri á landinu. Viljum við hins vegar stíga næsta skref og gera enn meiri árangur raunhæfan, þá krefst það aukins fjárhagslegs bolmagns. Slíkt verður ekki byggt upp af sjálfbærum rekstri félagsins einum saman, heldur kallar á virkan stuðning félagsmanna og annarra sem vilja leggja sitt af mörkum til þess að Þróttur geti keppt jafnfætis þeim bestu á landinu.
Ástæðan fyrir því að ég legg þetta allt fram í áramótaræðu er einföld. Í of mörg ár hefur verið talað um Þrótt á forsendum fortíðar. Nú er kominn tími til að tala um Þrótt eins og hann er í dag, horfa til framtíðar og vera stolt af því.
Grunngildi félagsins eru skýr, að veita börnum og unglingum framúrskarandi þjónustu, skapa þeim tækifæri til afreka eða þátttöku á eigin forsendum og byggja samfélag sem fólk tilheyrir alla ævi.
Því skulum við aldrei trúa þeirri gömlu mýtu að Þróttur sé eitthvað annað en fyrirmyndarfélag sem nær aldrei árangri því við stöndum mun framar öðrum liðum á svo margan hátt .
Alvöru gagnrýnandi myndi tala um stórtæka félagið í Laugardal.
Héðan í frá verður ekki hlegið að Þrótti heldur með okkur Þrótturum.
Því lífið er einfaldlega skemmtilegra í Laugardal.
Lifi Þróttur.