Hlynur Þórhallsson hefur skrifað undir nýjan samning við Þrótt og mun því leika með félaginu út árið 2028. Hlynur, sem er fæddur árið 2005, hefur þrátt fyrir ungan aldur verið alger lykilmaður í liði Þróttar undanfarin ár.
Hann hefur leikið yfir 70 leiki með meistaraflokki, jafnan sem miðvörður, og á að baki um 230 leiki fyrir Þrótt upp í gegnum alla yngri flokka. Hlynur er gegnheill Þróttari og einn fjölmargra ungra, uppalinna leikmanna sem nú bera uppi meistaraflokkslið félagsins. Hlynur var aðeins 18 ára þegar hann lék sína fyrstu leiki í vörninni með Þrótti í Lengjudeildinni og vakti strax athygli fyrir yfirvegun, tækni og afburða leikskilning.
Hlynur er ánægður með að hafa framlengt samning sinn við félagið:
„Þróttur er mitt félag og hefur verið það alla tíð. Ég er stoltur af því að fá að halda áfram að leika fyrir félagið sem ól mig upp og treystir mér í lykilhlutverki. Við erum með sterkan kjarna af uppöldum leikmönnum og ég trúi á þá vegferð sem félagið er á. Ég er hungraður í að þróast áfram og leggja mitt af mörkum til þess að liðið nái sínum markmiðum á næstu árum.“
Kristján Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar, segir:
„Hlynur Þórhallsson er lykilmaður í karlaliði félagsins og það er sérstakt fagnaðarefni að hann skuli hafa samþykkt nýjan samning. Við höfum lagt mikla áherslu á að byggja okkar lið á sterkum uppöldum leikmönnum og Hlynur er sannarlega í fremstu röð þeirra. Hlynur er metnaðarfullur leikmaður og mikil fyrirmynd yngri iðkenda, jafnt utan sem innan vallar, og það er ástæða til að gleðjast mjög yfir því að hann skuli hafa valið að leika áfram með Þrótti þrátt fyrir ýmsa aðra kosti.“
