Sagan & Merkið
Þrátt fyrir að vera í það fyrsta einungis knattspyrnufélag fylgdu aðrar íþróttagreinar fljótt á eftir og var þar handknattleikurinn stærstur og síðar kom skautahlaup, þar sem félagið átti nokkra af bestu skautahlaupurum landsins, og frjálsar íþróttir í kjölfarið. Félagið var starfrækt á Grímsstaðaholtinu til 1969, þegar því var úthlutað svæði við Sæviðarsund í austurborginni. Þar bættust við tvær íþróttagreinar, blak og tennis. Blakið átti eftir að verða aðalskrautfjöður félagsins og tennisdeildin varð einnig mjög sigursæl. Þar starfaði félagið til 1998 er það fluttist í Laugardalinn, „Hjartað í Reykjavík“.
Knattspyrnuiðkun í félaginu hófst svo að segja strax að loknum stofnfundinum því yngri drengirnir höfðu enga eirð í sér og voru búnir að skipta í lið áður en honum lauk. Það var ekki langt að bíða eftir fyrsta titlinum því 4.flokkur gerði sér lítið fyrir og varð Haustmeistari strax árið 1951. Þeir elstu hófu strax keppni gegn starfsmannafélögum og gekk vel þar en það var ekki fyrr en á árinu 1953 að meistaraflokkurinn var samþykktur inn í mót hinna stóru og tók þátt í Reykjavíkur- og Íslandsmótinu það árið. Árið 1955 var tekin upp deildaskipting og var Þróttur meðal þeirra sex liða sem léku í A-deild það ár en varð einnig fyrsta liðið til að falla í B-deildina. Ellefu sinnum hefur félagið unnið sig upp í A-deildina, síðan þá, en aðeins þrisvar sinnum hefur því tekist að halda sæti sínu lengur en eitt ár, þ.e. 1978 – 80, 1983 – 85 og 2008-09. Þróttur féll í C-deild árið 1988 og lék þar næstu tvö árin. Ásgeir Elíasson er sá þjálfari sem þjálfað hefur karlaliðið lengst, eða tíu tímabil, þ.e. 1981 – 1984 og 2000 – 2005. Þróttur hefur tvisvar hampað Íslandsmeistaratitli innanhúss, 1984 og 1997 og jafnoft hefur félagið orðið Reykjavíkurmeistari utanhúss, 1966 og 2002 og og þá varð félagið Reykjavíkurmeistari innanhúss 1984. Kvennalið félagsins var eitt af frumherjunum í íslenskri kvennaknattspyrnu og lék í A-deildinni fyrstu fjögur árin, 1972 – 1975, en hætti þá þáttöku vegna manneklu. Liðið hóf aftur þátttöku árið 2000 og sigraði í B-deildinni strax 2001 en afsalaði sér þáttökurétti í A-deild 2002 vegna manneklu. Þróttur vann B-deildina aftur það ár og er eina félagið sem hefur unnið þá deild tvö ár í röð. Árið eftir lék liðið í sameiginlegu liði með Haukum en hefur leikið undir nafni Þróttar, lengst af í B-deild en kíkt í A-deildina annað slagið og er að gera það mjög gott í ár, 2020. Yngri flokka starf hefur verið með miklum blóma og er knattspyrnudeild félagsins ein sú stærsta á landinu. Árið 2018 hóf Þróttur æfingar í göngufótbolta, fyrst félaga á landinu, en íþróttin hefur mjög svo rutt sér til rúms um heiminn og er hugsuð fyrir þá sem hættir eru iðkun venjulegs fótbolta og eins þeirra sem erfitt eiga með hlaup, jafnvel þeirra sem eru í hjólastól.
Strax eftir stofnun félagsins kom fram mikill áhugi að stofna handknattleiksdeild innan þess, bæði meðal karla og kvenna. Snemma árs 1951 hefst starfsemi handknattleiksnefndar, sem var undir handarjaðri aðalstjórnar til að byrja með. Áhugi var mikill, sérstaklega hjá stúlkunum, og um vorið 1952 varð 2.flokkur fyrsti flokkur félagsins til að vinna Íslandsmeistaratitil og um haustið urðu þær Reykjavíkurmeistarar. Vorið eftir vörðu þær Íslandsmeistaratitilinn og meistaraflokkurinn vann B-deildina og vann sér sæti í A-deild. Árið 1957 gerðu stúlkurnar enn betur þegar þær unnu alla þrjá flokkana sem keppt var í og urðu Íslandsmeistarar í meistara-, 1. og 2.flokki. Fjórar af þessum sigursælu stúlkum voru valdar í landslið Íslands, þær Helga Emilsdóttir, Katrín Gústafsdóttir, Elín Guðmundsdóttir og Margrét Hjálmarsdóttir. Tvær þær fyrstnefndu voru báðar fyrirliðar landsliðsins í nokkrum leikjum og þær Helga og Margrét urðu 1964 Norðurlandameistarar, fyrstar Þróttara. Hjá körlunum hefur gengið upp og niður, mest hefur það verið barátta við að komast meðal þeirra bestu og má segja að besta tímabil félagsins sé 1975 – 1985. Árið 1976 verður félagið Reykjavíkurmeistari í fyrsta sinn, 1980 fór liðið upp í efstu deild , varð í 2.sæti á Íslandsmótinu 1981 og kórónaði síðan árangurinn með Bikarmeistaratitli eftir æsispennandi úrslitaleik gegn Íslandsmeisturum Víkings sem ekki hafði tapað fyrir íslensku liði lengi. Liðið vann sér þar með rétt til þátttöku í Evrópukeppni bikarhafa þar sem það vann hvern sigurinn á fætur öðrum, en féll að lokum úr keppni, í undanúrslitum, gegn liði Dukla Prag, einu af bestu liðum Evrópu. Tveir af máttarstólpum liðsins, þeir Sigurður Sveinsson og Páll Ólafsson áttu eftir að gera það gott með landsliðinu og í atvinnumennsku. Yngri flokkar félagsins hafa mörgum sinnum náð á toppinn og hampað titlum. Vegna mikilla rekstrarerfiðleika lagðist deildin af árið 1990 en árið 2007 hófu karlanir aftur keppni, en því miður dugði það aðeins til ársins 2020, er liðið var enn á ný lagt niður. Einhverjir yngri flokkar munu halda áfram starfi. Þessir erfiðleikar munu að miklu leyti stafa af aðstöðuleysi félagsins.
Tennisdeildin var stofnuð í júní 1989. Aðalhvatamaðurinn að stofnun hennar var Pétur Ingólfsson, sem þá sat í aðalstjórn Þróttar. Stofnfélagar voru 50 talsins og var Atli Arason kjörinn fyrsti formaður deildarinnar. Fyrsta verkefnið var að koma upp aðstöðu fyrir félagana og var hún byggð upp við suðurenda malarvallarins í Sæviðarsundi, en þar var hægt að koma upp þremur tennisvöllum, ásamt æfingaaðstöðu. Keypt var gervigras frá Þýskalandi og eftir um 1100 stunda sjálfboðavinnu voru vellirnir vígðir 19.ágúst 1990. Fyrstu keppendurnir sem kepptu undir nafni Þróttar tóku þátt í Íslandsmótinu sama ár og unnu til átta verðlauna og þá kom fyrsti Íslandsmeistaratitillinn í höfn. Takmarkið var að gera deildina að þeirri öflugustu og sigursælustu á landinu. Óhætt er að segja að það hafi tekist því 1992 urðu þrettán Þróttarar Íslandsmeistarar og þeir áttu eftir að verða fleiri á komandi árum og 1993 eignaðist félagið fyrstu þrjá landsliðsmennina, þau Atla Þorbjörnsson, Katrínu Atladóttur og Stefaníu Stefánsdóttur. Mikil aðsókn var í tennisdeildina og strax 1991 varð að takmarka þátttökuna vegna þess að tennisvellirnir þrír önnuðu ekki fleiri spilurum. Flutningur félagsins í Laugardalinn kom illa niður á deildinni, hún missti sína frábæru aðstöðu og var án aðstöðu í tvö ár. Þetta hafði það í för með sér að keppnisliðið hvarf til annarra félaga. Vellir voru gerðir við Valbjarnarvöll og starfið hélt áfram þó svo að minna hafi farið fyrir barna- og unglingastarfi og annarri uppbyggingu keppnisliða.